Eldri sýningar

Á efsta degi. Býsönsk dómsdagsmynd frá Hólum

  • 20.10.2007 - 25.5.2008, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Til sýnis eru þrettán fornar og fagurlega útskornar furufjalir, nú kenndar við bæinn Bjarnastaðahlíð í Skagafirði, en munu upprunalega hafa verið úr mikilfenglegri dómsdagsmynd sem prýtt hefur dómkirkju Jóns helga Ögmundssonar biskups á Hólum í Hjaltadal.

Á sýningu Þjóðminjasafnsins er saga þessara merku myndfjala rakin og gerð grein fyrir rannsóknum og kenningum fræðimanna í tengslum við þær. Nútímatækni er beitt til að sýna þær í upprunalegu samhengi og reynt að endurskapa dómsdagsmyndina. Gegnum sýninguna geta safngestir ímyndað sér hvílíkt listaverk kirkjugestir höfðu fyrir augum á 12. öld.

Fjalirnar fundust á 19. öld í árefti (þ.e. þakklæðningu) útihúss, fyrst í Flatatungu og síðar í Bjarnastaðahlíð, en höfðu þá vafalaust verið notaðar sem húsaviðir öldum saman. Um er að ræða ómetanleg menningarsöguleg verðmæti sem vakið hafa áhuga margra fræðimanna, allt frá Bólu-Hjálmari og Jónasi Hallgrímssyni til sérfræðinga nútímans.

Rannsókn dr. Selmu Jónsdóttur, fyrrum forstöðumanns Listasafns Íslands, um miðbik 20. aldar markaði tímamót. Með samanburði við átta austrænar eða býsanskar dómsdagsmyndir sem varðveist hafa annars staðar í heiminum leiddi hún rök að því að fjalirnar úr Bjarnastaðahlíð væru úr stórri tréskurðarmynd sem sýnt hefði hinn svokallaða býsanska dómsdag.

Sú dómsdagslist sem þróaðist í austurkirkjunni var frábrugðin hefð vesturkirkjunnar og er rakin til túlkunar sýrlenska kirkjuhöfðingjans Efraíms á 4. öld eftir Krist. Hann lýsti því sem gerast mun þegar englar þeyta básúnur fyrir dómsdag og má sjá sumt á Bjarnastaðahlíðarfjölunum. Þar er höfuð Satans, dýr spýta úr sér líkamspörtum manna sem þau hafa gleypt og María biður fyrir mannkyninu á deginum þegar hinir dauðu eru kallaðir fyrir dómara himins og jarðar.

Myndir af dómsdegi koma við kjarna kristindómsins, frelsun manna og eilífa útskúfun, og eru meðal mögnuðustu listaverka sem sköpuð hafa verið innan kirkjunnar. Þær voru fyrirferðarmiklar og náðu þegar fram leið oft yfir allan vesturvegg kirkjunnar við útganginn þar sem boðskapurinn blasti við söfnuðinum á leið út.

Aðeins örfáar býsanskar dómsdagsmyndir voru þekktar í Vestur-Evrópu og íslenska myndin er önnur tveggja slíkra tréskorinna sem vitað er um í heiminum. Aðrar varðveittar myndir af þessu tagi voru málaðar á steinveggi, unnar í mósaík eða teiknaðar í handrit.

Selma taldi dómsdagsmyndina hafa skreytt þverþil í veraldlegu húsi og nefndi til skála sem listasmiðurinn Þórður hreða átti að hafa smíðað í Flatatungu samkvæmt sögu sem skrifuð var á 14. öld og kennd við hann. Dómsdagsmyndin hefur þó upphaflega verið of stór til að rúmast á nokkru skálaþili og virðist kenning dr. Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar um að dómsdagsmyndin hafi upprunalega verið í Hóladómkirkju öllu sennilegri.

Síðar rannsakaði Hörður Ágústsson listmálari og fræðimaður fjalirnar og komst að þeirri niðurstöðu að þær hefðu tilheyrt mynd sem skreytt hefði innanverðan vesturvegg dómkirkjunnar sem Jón Ögmundsson lét reisa skömmu eftir að hann varð biskup á Hólum árið 1106. Hörður endurgerði einnig dómsdagsmyndina eins og hún kann að hafa verið upprunalega.

Mörg forn göt eftir trénagla á myndfjölunum benda til að þær hafi hangið á vegg og ekki verið hluti sjálfrar byggingarinnar og gæti myndin því verið gerð eftir að kirkjan var byggð. Aldursgreining á sýnum úr sjálfum viðunum hefur leitt í ljós að þeir eru að líkindum frá því um lok 10. aldar.

Myndin gæti hafa verið pöntuð að utan eða skorin út á Íslandi en trúlegt virðist að Jón biskup hafi fengið hingað erlendan útskurðarmeistara. Í langri vígsluferð sinni kom hann meðal annars til Rómarborgar sem var í nánu sambandi við klaustrið á Cassinófjalli, helsta tengilið býsanskrar og vesturevrópskrar listar á þeim tíma.

Hugsanlega hefur þessi dómsdagsmynd síðan verið fest upp í nýju kirkjunni sem Jörundur Þorsteinsson biskup lét reisa um 1300. Hún hrundi hins vegar öld síðar og hefur þá myndin laskast og útskornu fjalirnar í framhaldi af því verið nýttar sem húsaviðir.

Fjalirnar hafa upphaflega verið fleiri og lengri. Sumar eru einungis lítil brot en nokkrar hafa haldið upprunalegri breidd. Úr Bjarnastaðahlíð komu þær til Þjóðminjasafnsins árið 1924, þá afar fúnar og viðkvæmar, og var lím borið á bakhlið þeirra samkvæmt varðveisluaðferðum þess tíma. Bæði viður og lím þoldu þó illa loftslagsbreytingar og versnaði ástand fjalanna þau 74 ár sem þær voru til sýnis í eldri sýningarsölum Þjóðminjasafnsins þar sem hvorki var raka- né hitastýring. Ekki fyrr en safninu var lokað árið 1998 komust þær í stöðugt loftslag í geymslum þess. Fimm fjalanna voru þó svo illa farnar að ekki þótti forsvaranlegt að sýna þær. Ráðist var í umfangsmikið forvörsluverkefni, límið fjarlægt og reynt að styrkja viðinn til að tryggja framtíðarvarðveislu. Þrátt fyrir hrakningana eru þrettán upprunaleg brot fjalanna varðveitt með útskurði og þökk sé nýloknu forvörsluátaki er nú hægt að sýna þessar merku minjar fortíðarinnar og miðla þeim til samtímans.

Karen Þóra Sigurkarlsdóttir forvörður stýrði viðgerðinni og er jafnframt höfundur sýningarinnar. Við forvörslu fjalanna og sýningargerðina naut Þjóðminjasafnið styrks frá Þjóðhátíðarsjóði og frá Minningarsjóðum Ingibjargar G. Johnson, Philip Verral og Helga S. Gunnlaugssonar sem eru í vörslu safnsins og sérstaklega ætlað að styðja við verkefni þess.

Í tengslum við sýninguna er komið út vandað rit þar sem gerð er grein fyrir rannsóknum á myndfjölunum. Auk Karenar eiga þau Þór Magnússon fyrrum þjóðminjavörður, Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur og Guðrún Harðardóttir sagnfræðingur áhugaverðar greinar í ritinu.

Árni Páll Jóhannsson hannaði sýninguna og vinnsla á margmiðlunarefni var í höndum fyrirtækisins Gagarín.

Það er Þjóðminjasafninu sönn ánægja að geta nú sýnt afraksturinn af verkefni sem lengi hefur verið í vinnslu innan sem utan veggja safnsins. Vonandi á sýningin jafnframt eftir að vekja áhuga sem flestra á mikilvægi þess að standa vel að vörslu menningararfsins.