Eldri sýningar

Gleym mér ei - ljósmyndun og endurminningar

  • 23.10.2004 - 31.12.2004, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýning frá Van Gogh safninu í Amsterdam en sýningarstjóri var hinn þekkti ljósmyndafræðingur og prófessor Geoffrey Batchen.  Á sýningunni var lögð áhersla á mikilvægi ljósmyndarinnar til endurminningar, og hvernig auka má vægi hennar með hlutum tengdum því fólki sem ljósmyndin sýnir, s.s. mannshári og skrauti ýmis konar.

Tilkoma ljósmyndunar árið 1839 gerði flestum kleift í fyrsta sinn að eignast mynd af fjölskyldu sinni og vinum. Ljósmyndatæknin sem við teljum sjálfsagða hafði byltingarkennd áhrif: sumir spáðu því jafnvel að dagar málverksins sem listforms væru taldir. Fyrir marga varð ljósmyndin samt bara tæknilegt fágæti, augnablik fest á eintóna mynd. Fólki fór að finnast að eitthvað skorti uppá ljósmyndina: Það fór að bæta einhverju áþreifanlegu við myndina sem gæti aukið tilfinningalegt gildi myndarinnar til að hún yrði eitthvað meira en bara minjagripur um þá manneskju sem hún sýndi.

Alls kyns búnaður var notaður til að auka við ljósmyndir, þar á meðal að bæta við þær texta, blómum, snúrum, vindlahringjum, ljósmyndir fiðrildavængjum og jafnvel mannshári. Ýmsir hlutir voru notaðir til að geyma. Portrett voru sett í nælur, hálsmen, silfurskríni og í skreytta ramma. Á Vesturlöndum skapaðist sú hefð að taka portrett af fólki með ljósmynd af látnum ástvinum, til að sýna að fólk hafði ekki gleymt þeim. Dæmi um allar þessar útfærslur eru á sýningunni. Í flestum tilvikum er ljósmyndarinn óþekktur.

Ísland fór ekki varhluta af þessum myndgerðum og mörg form minningarbættra mynda hafa tíðkast hér og gera enn. Sýnishorn slíkra mynda úr Þjóðminjasafninu og einkaeigu eru hluti af sýningunni hérlendis.

Þetta fyrirbæri minningarbættra mynda var ekki bundið við Vesturlönd eins og kemur fram í myndum frá Indlandi og Mexikó. Bæði löndin hafa sína einstæðu  hefð í helgimyndagerð. Indverskir ljósmyndarar máluðu til dæmis myndir sínar til að láta líta út eins og þær væru málaðar smámyndir. Andstætt því skapaðist í Mexikó á fyrri hluta 20. aldar staðbundinn myndgerð þrívíðra ljósmyndahluta, sem kallast Fotoscultura.