Eldri sýningar

Konungsheimsóknin 1907

  • 8.10.2005 - 27.11.2005, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á haustmánuðum 2005 opnaði Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sýningu í Myndasal þar sem gat að líta ljósmyndir frá konungskomunni 1907 er Friðrik 8. Danakonungur heimsótti landið. Á sýningunni voru tæplega 60 ljósmyndir úr Reykjavík og af Suðurlandi teknar af Halldóri E. Arnórssyni, Hallgrími Einarssyni, Magnúsi Ólafssyni, Pétri Brynjólfssyni, Vigfúsi Sigurðssyni og óþekktum ljósmyndara. Eru þær í eigu Þjóðminjasafns Íslands og Minjasafnsins á Akureyri.

Myndirnar bregða upp fjölþættri svipmynd af konungskomunni og sýna hve mikill viðburður heimsókn Friðriks VIII var fyrir þjóðina. Þær sýna líka hversu konungur lagði sig fram um að vera alþýðlegur í framgöngu. Myndirnar sýna auk þess margt, margt fleira; skipan samgangna, húsakost og klæðnað svo fátt eitt sé nefnt.

Á sýningunni er brugðið upp myndum af Reykjavíkurdvöl konungsins og frá ferðinni um Suðurland. Við komuna til Reykjavíkur voru um fimmtíu ljósmyndarar sem tóku myndir af því þegar danskur konungur steig öðru sinni fæti á íslenska jörð.

Íslendingar voru við dögun nýrrar aldar í tvöföldum skilningi árið 1907. Tímarnir einkenndust af bjartsýni, framfarahug og óbilandi trú á land og þjóð. Vélvæðing sjávarútvegs var hafin, ný fyrirtæki sóttu fram á fjölmörgum sviðum, þéttbýlismyndun fór vaxandi og Íslendingar höfðu fengið eigin ráðherra og sóttust eftir frekara sjálfræði í eigin málum.

Íslendingar lögðu því metnað og stolt í að taka sem best á móti Friðriki VIII, konungi Danmerkur og Íslands og föruneyti hans. Með honum voru ýmsir framámenn, Harald prins, J. C. Christensen forsætisráðherra, Ole Hansen landbúnaðarráðherra og fjörutíu ríkisþingmenn auk danskra blaðamanna. Í ferðum innanlands bættist í hópinn íslenskt fylgdarlið þingmanna og embættismanna með Hannes Hafstein ráðherra í broddi fylkingar. Fylgdarliðið var því fjölmennt.

Slík heimsókn var ekki einföld árið 1907. Til að hún yrði möguleg varð að reisa hús og lagfæra önnur, leggja vegi og laga aðra sem fyrir voru, brúa ár, útvega vagna, reiðhesta og eyki og ótal margt fleira. Langflestir fóru ríðandi í sjö daga ferð konungs um Suðurland. Til þess þurfti 400-500 hesta og leita þurfti að lánshestum meðal bænda í átta sýslum til að ná saman þeim mikla fjölda. Mikill metnaður var lagður í allan undirbúning heimsóknarinnar eins og myndir frá henni bera með sér.