Eldri sýningar

Mannlíf á Eskifirði 1941-1961. Ljósmyndir Halldóru Guðmundsdóttur

  • 8.10.2007 - 27.11.2007, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Í fórum Þjóðminjasafns Íslands eru mörg filmusöfn frá áhugaljósmyndurum sem starfað hafa víða um land. Eitt þeirra er safn Halldóru Guðmundsdóttur (1909-1997). Í því eru yfir 10.000 myndir. Safnið er mjög fjölbreytt að myndefni og í því eru myndir frá ýmsum stöðum á landinu.

Dóra, eins og hún var kölluð, byrjaði snemma að taka ljósmyndir og hélt því áfram alla ævi. Myndir Dóru þóttu vel teknar og hún hafði gott auga fyrir myndefni. Öll umgengni Dóru um myndirnar lýsti ótrúlegri natni og góðri skipulagningu. Hún setti myndirnar kerfisbundið í albúm og skrifaði skýringartexta við. Alls urðu albúmin hennar rúmlega 100.

Áhugaljósmyndun Dóru vakti athygli. Í kringum 1930 var stofnað fyrirtæki sem framleiddi póstkort og fékk það að búa til póstkort eftir myndum hennar. Dóra tók margar Reykjavíkurmyndir og var haldin sýning á myndum hennar úr borginni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Árið 1989 var gerður sjónvarpsþáttur um Dóru og myndir hennar, í þáttarröðinni Fólkið í landinu.

Halldóra var Reykjavíkurmær. Hún var yngri dóttir hjónanna Guðmundar Gestssonar söðlasmiðs og Vilborgar Bjarnadóttur. Að skólagöngu lokinni starfaði hún við verslunarstörf. Dóra giftist Sigurði Magnússyni skipstjóra og útgerðarmanni frá Eskifirði árið 1941 og fluttist þangað. Þau eignuðust tvö börn. Eskfirðingar tóku vel á móti Dóru og þar átti hún heimili sitt á Víðivöllum í 20 ár. Hún tók virkan þátt í félags- og menningarlífinu á staðnum og henni þótti afar vænt um Eskifjarðarárin.

Þjóðminjasafnið gekkst fyrir sýningu á Eskifirði árið 2003 á úrvali mynda frá Eskifjarðarárum Dóru í samstarfi við heimamenn. Myndirnar endurspegla áhugamál hennar, börnin í bænum, hennar eigin og annarra, félagsstarf bæjarbúa og viðburði í bæjarlífinu. Þær eru því persónulegar og ekki endilega dæmigerðar fyrir myndasafn Dóru.