Forvarsla

Hvað er forvarsla?

19.10.2015

Forvarsla er þverfagleg starfsgrein sem hefur það að markmiði að stuðla að langtíma varðveislu hvers konar menningarsögulegra gripa, til dæmis listaverka, forngripa, bóka og handrita. Þar sem þessir munir geta verið af ólíku tagi, sérhæfa forverðir sig innan ákveðinna greina forvörslu, svo sem forvörslu málverka, forngripaforvörslu, textílforvörslu og forvörslu pappírs.

forvarsla

Forvarsla byggist á ólíkum fræðigreinum, svo sem efnafræði, eðlisfræði, líffræði, listasögu, fornleifafræði, sagnfræði, þjóðfræði og siðfræði. Forvarsla byggist á skilningi á vísindalegum eiginleikum þeirra efna sem gripirnir eru úr, hvernig þessi efni eldast og bregðast við áhrifum umhverfisins. Þessi vitneskja gerir forvörðum kleift að koma í veg fyrir skemmdir á gripum með því að hefta eyðileggjandi áhrif. Einnig er sögulegt (menningarsögulegt og listsögulegt) samhengi gripanna mikilvægt og getur því haft mikil áhrif á meðferð þeirra. Öll efni sem notuð eru í viðgerðir eru vandlega valin með tilliti til þess að þau skaði ekki gripina og að unnt sé að fjarlægja þau síðar. 

 

Handbækur um varðveislu

Dæmi um verkefni forvarðar

  • Meðferð til að gera varðveislu gripa stöðuga eða hamla gegn hrörnun þeirra.
  • Viðgerðir með það að leiðarljósi að koma skemmdum eða hrörnuðum gripum í upprunalegt ástand án þess að glata fagurfræðilegu eða sögulegu samhengi.
  • Rannsóknir á gripum til að ákvarða hvaða efni voru notuð við framleiðslu þeirra eða eldri viðgerðir.
  • Rannsóknir á gripum til að skera úr orsök og umfang skemmda eða breytingu frá upprunalegu horfi.
  • Gerð skýrslna í máli og myndum um ástand gripa fyrir og eftir meðferð.
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir til að hamla gegn skemmdum með því að gefa ráðleggingar og hafa eftirlit varðandi umhverfi muna, hvort sem þeir eru á sýningu eða í geymslu og áþað einkum við um ljósmagn, hitastig og rakastig.
  • Veita ráðgjöf um pökkun, geymslu og flutning viðkvæmra gripa.
  • Fylgjast með nýjustu rannsóknum, tækni og framförum á sviði forvörslu.

Forvarsla viðarhöggmynda eftir Ásmund Sveinsson

Í kjölfar bruna í geymsluhúsnæði Listasafns Reykjavíkur í ágúst 2002 tóku forverðir Þjóðminjasafnsins að sér viðgerðir á viðarhöggmyndum eftir Ásmund Sveinsson úr eigu Ásmundarsafns sem heyrir undir Listasafn Reykjavíkur. Höggmyndirnar höfðu orðið fyrir skemmdum af völdum vatns og reyks.Forvarsla

Fyrsta stig meðferðarinnar fólst í að þurrka verkin. Til að koma í veg fyrir frekari skemmdir af völdum vatns voru verkin látin þorna hægt. Til þess var smíðað tjald til að stjórna þurrkunarferlinu en það stóð yfir í tíu vikur (sjá mynd 1)

ForvarslaÞví næst var yfirborðið hreinsað af sóti og öðrum óhreinindum (sjá mynd 2).

Lokastig meðferðarinnar er að koma höggmyndunum í sýningarhæft ástand sem felst m.a. í að laga skemmdir á yfirborði og líma saman hluta sem voru lausir (sjá myndir 4 og 5).

 

 

 

 

 

Textílforvarsla - Hökull Jóns Arasonar

Hökull Jóns Arasonar ForvarslaHökull sem Jón Arason biskup lét gera og gaf kirkjunni að Hólum í Hjaltadal. Hann er sennilega norður-þýskur og frá byrjum 16. aldar. Krossinn á bakinu er allur útsaumaður af hinni mestu list, með gull- og silkiútsaumi. Á hann eru saumaðar sjö myndir sem sýna atburði úr sögu Jesú Krists og Maríu.  Árið 1856 var hökullinn sendur til varðveislu til Kaupmannahafnar og kom hann til Þjóðminjasafns Íslands 1930. 

Forvarsla forngripa

Forngripir grafnir úr jörðu sem ekki hljóta viðeigandi meðferð og aðgæslu geta hæglega grotnað niður á mjög skömmum tíma, þetta á jafnt við um gripi úr lífrænum efnum (s.s. tré, leður og bein) og málma. Á uppgraftarstað felst forvarslan í viðeigandi pökkun en meðferð til að gera gripi stöðuga og hamla gegn hrörnun þeirra fer fram á forvörsluverkstæði Þjóðminjasafnsins. 

Forvarsla forngripaSem dæmi um algenga forvörslumeðferð, mætti nefna frostþurrkun sem í dag er álitin besta aðferðin til að varðveita forngripi úr lífrænum efnum, s.s. viði og leðri. Aðferðinni er beitt til þess að þurrka lífræn efni án þess að frekari skemmdir í frumuveggjum eigi sér stað við uppgufun vatns. Meðferðin felst í því að gripirnir eru lagðir í ákveðnar efnablöndur (s.s. polyethyleneglycol eða glycerol), frystir og að lokum frostþurrkaðir. Þannig er hægt að stuðla að varðveislu á upprunalegu formi gripa og hægt er að rannsaka þá til hlítar.

 

Forvarsla forngripaHreinsun málma, svo sem járns og kopars, er vandasamt verk sem krefst mikillar nákvæmni og þolinmæði. Oft eru teknar röntgenmyndir af gripunum til að greina megi upprunalegt yfirborð þeirra sem er yfirleitt hulið af jarðvegi og málmútfellingum (mynd 1 og 2). Með röntgenmyndum má greina innfellda málma, t.d. silfur eða kopar á járni (sjá mynd 1).

Forvarsla forngripaJárngripir eru hreinsaðir með sandblásturstæki en gripir úr öðrum málmum s.s. kopar, blýi og silfri eru hreinsaðir með ýmsum verkfærum oft með hjálp smásjár.

Málmar sem grafnir eru úr jörðu eru í flestum tilfellum meiri hætta á að tærast en aðrir málmar, því reynist nauðsynlegt að fylgjast náið með ástandi málmhluta hvort sem þeir eru á sýningu eða í geymslu.