Myndasöfn - Guðni Þórðarson (1923-2013)
Íslensk dagblöð höfðu lengi vel ekki á að skipa sérhæfðum blaðaljósmyndurum. Margir blaðamenn voru því með myndavél og mynduðu samhliða því að skrifa fréttir. Einn sá mikilvirkasti á því sviði var Guðni Þórðarson blaðamaður á dagblaðinu Tímanum. Guðni hafði fengið ljósmyndavél í fermingargjöf og kynntist ljósmyndun því ungur. Hann hóf að mynda strax við upphaf ferils síns í blaðamennsku árið 1944 og var að fram undir 1959. Guðni var opinn fyrir nýjum stefnum í ljósmyndun og varð fyrir áhrifum frá erlendum myndablöðum á borð við Se, Life, Paris Match og Picture Post. Fyrir daga sjónvarps voru blöð af þessu tagi helsti glugginn út í heiminn. Námskeið sem Guðni sótti í blaðamannaskóla Time Life í Ameríku á árunum 1949 og 1950 opnuðu honum nýja sýn og nálgun. Þannig gerði Guðni ýmsar eftirtektarverðar tilraunir til að skapa myndafrásagnir eða „photo essay“ eins og tíðkuðust í erlendum myndablöðum. Dæmi þess eru Efst á Arnarvatns hæðum. Frá síðustu fundum Húnvetninga og Borgfirðinga við Réttarvatn 1948 (þegar gangnahópar Húnvetninga og Borgfirðinga hittust á mörkum afrétta hinsta sinni), Nýja Mjólkurstöðin árið 1949 og Vetrardagur í sveit árið 1950. Vettvangurinn fyrir slíkar myndasyrpur var í tímaritinu Samvinnunni, en þar birti Guðni myndir sem og í ýmsum fleiri blöðum og tímaritum. Guðni var einn af þeim fyrstu sem fór í myndatökuferðir til útlanda en á sjötta áratugnum ferðaðist hann til Grimsby í Bretlandi, um Íslendingabyggðir vestanhafs og til Egyptalands. Guðni var lykilmaður í gerð ljósmynda á Iðnssýninguna árið 1952. Sjálfur sagði hann að ljósmyndir sínar endurspegluðu „lifandi líf fólks í landinu“. Guðni afhenti safn sitt til Ljósmyndasafnsins Íslands í Þjóðminjasafni í tveimur áföngum 2005 og 2006. Í því eru um 14.000 filmur.