Myndasöfn - Jón Kaldal (1896 – 1981)

Fagurfræðileg nálgun í mannmyndatökum var sérkenni Jóns Kaldals og hann hefur verið marglofaður fyrir verk sín. Kaldal kynntist ljósmyndun á unglingsárunum og lærði fagið um stund í Reykjavík. Hann sigldi til Danmerkur til áframhaldandi náms og kynntist sænskum ljósmyndara Bror Johanson sem hann nefnir sem sinn helsta áhrifavald. Við heimkomu árið 1925 opnaði Kaldal stofu á Laugavegi 11. Hans vinnulag var einstakt meðal stúdíóljósmyndara þar sem hann notaðist við lágmarks ljós og gluggabirtu. Myndir hans voru dökkar og dulúðlegar nærmyndir sem gjarnan sýndu sterk persónueinkenni. Eftirminnilegar myndir hans af þekktum einstaklingum eins og t.d. Kjarval, Steini Steinarr, Ástu Sigurðardóttur og Finni Jónssyni áttu þátt í að móta ímynd þeirra sem listamanna og einstaklinga en jafnframt að halda á lofti nafni Kaldals. Margar ógleymanlegar myndir tók hann af fólki sem hann sá á förnum vegi og bað sértaklega um að fá að mynda á ljósmyndastofu sinni. Kaldal tók þátt í nokkrum samsýningum og var fyrstur ljósmyndara á Íslandi til að halda einkasýningu. Sú sýningin Svart og hvítt var haldin árið 1966 í tilefni sjötugsafmæli Kaldals. Þar voru sýndar stækkaðar mannamyndir fyrst og fremst af listamönnum og frægu fólki úr þjóðlífinu. Kaldal gaf sér rými innan stofunnar til að vinna sem skapandi ljósmyndari en vann annars við fjöldaframleiðslu. Árið 1933 keypti Kaldal svokallaða Polyfoto myndavél og var einn af tveimur sérleyfishöfum á Íslandi. Með slíkri vél var hægt festa á eina myndaplötu 48 tökur. Þannig fékk hver viðskiptavinur af sér fjölmargar myndir á lágu verði. Polyfoto urðu það vinsælar að Kaldal var gagnrýndur af félögum sínum í Ljósmyndarafélagi Íslands fyrir lágt verð á myndatökum. En mannamyndir voru ekki eina viðfang Jóns Kaldals. Hann tók töluvert af innanhússmyndum bæði í heimahúsum, skólum og fyrirtækjum sem sýna aðra hlið á honum sem ljósmyndara. Kaldal vann við ljósmyndun í yfir fimmtíu ár. Lengst allra hélt hann áfram að taka ljósmyndir á glerplötur eða fram yfir 1970. Myndasafn hans kom að hluta til Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni eftir bruna sem varð á ljósmyndastofu hans árið 1963 en seinni hlutinn kom árið 1996. Það eru um 98000 plötur í Kaldalssafni og 106 frummyndir.