Myndasöfn - Sigfús Eymundsson (1837-1911)

Sigfús Eymundsson var frumkvöðull í ljósmyndun á Íslandi. Honum tókst fyrstum íslenskra ljósmyndara að gera ljósmyndun að ævistarfi. Hann hóf störf árið 1866 eftir nám í Bergen í Noregi og rak ljósmyndastofu í Reykjavík til 1909. Lengst af þessum tíma var stofa hans sú eina í bænum. Staðsetning stofunnar var afgerandi í velgengni Sigfúsar. Í Reykjavík voru helstu stofnanir landsins. Þar bjuggu æðstu embættismennirnir, þar voru menntastofnanirnar, framan af Latínuskólinn, en seinna Sjómannaskólinn og Kvennaskólinn og þar kom Alþingi saman. Það voru því ekki aðeins íbúar bæjarins, heldur líka þingmenn, skólanemar og aðrir þeir sem áttu erindi til Reykjavíkur sem heimsóttu ljósmyndastofu Sigfúsar í Lækjargötu og létu taka af sér myndir. Fólk lét taka af sér myndir einu eða með öðrum og í hópum. Lang flestir í fyrsta skipti á ævinni lengi framan af. Kjarni ferðamanna sem komu til Íslands á þessu tímabili hófu ferð sína um landið í Reykjavík. Margir þeirra leituðu til Sigfúsar, hann myndaði ferðamennina á ljósmyndastofunni eða á hestum í upphafi ferðar eða þegar heim var komið. En hann seldi þeim líka ljósmyndir af helstu áfangastöðum ferðarinnar Þingvöllum, Geysi, Heklu, Seljarlandsfossi og Gullfossi sem hann kom á kortið og liðsinnti þeim við eigin myndatökur. Glerplötusafn frá ljósmyndastofu Sigfúsar var fyrsta glerplötusafn sem barst Þjóðminjasafni til varðveislu. Í því eru um 14.900 plötur. Auk þess er varðveitir safnið mikið af frumkópíum frá ljósmyndastofu hans. Þetta eru fyrst og fremst mannamyndir en líka gott úrval af landslags- og staðarmyndum en hann var frumkvöðull í töku slíkra mynda sem mörgu öðru.