Myndasöfn - Sigríður Zoëga (1889-1968)

Sigríður átti langan og farsælan feril sem ljósmyndari í Reykjavík í yfir hálfa öld frá 1914 og þar til hún hætti störfum fyrir aldurs sakir. Hún var einn af brautryðjendum kvenna í faginu. Átján ára var hún komin í vinnu á ljósmyndastofu í Reykjavík og haustið 1910 sigldi hún af landi brott að leita sér frekari menntunar í faginu. Sigríður var af efnuðu fólki komin og af fyrstu kynslóð kvenna á Íslandi sem áttu möguleika á frekari menntun. Eftir nokkrum krókaleiðum komst hún í læri í Þýskalandi hjá hinum þekkta ljósmyndara August Sanders. Þegar hún sneri heim fjórum árum seinna opnaði hún eigin ljósmyndastofu. Steinunn Thorsteinsson, æskuvinkona og fyrrum vinnufélagi Sigríðar kom í vinnu hjá henni og þær störfuðu saman alla tíð síðan. Eftir að fyrsta stofa Sigríðar brann í Reykjavíkurbrunanum mikla árið 1915 varð reksturinn sameign Sigríðar og Steinunnar og fékk nafnið Sigríður Zoëga og Co. Stofan var mörg ár á Hverfisgötu 4-6 en flutti í Austurstræti 10 árið 1934. Sigríður naut mikilla vinsælda sem ljósmyndari og var þekkt fyrir afar fágaða vinnu og sérlega vandaðar uppstillingar. Hún kom með ýmsar nýjungar og eitt af hennar sérkennum var að nota aldrei tilbúinn málaðann bakgrunn heldur eingöngu stofuvegginn. Einstök natni var lögð í hópmyndir t.d. af starfsmannahópum og þegar passamyndatökur ruddu sér til rúms var stofan fljót að bjóða uppá þá þjónustu. Á löngum ferli gefur myndasafn hennar einstakan sjónrænan þverskurð af vexti borgarastéttarinnar. Sigríður vann lítið utan stofu og fáar útimyndir eru varðveittar eftir hana. Myndatökur hennar utan stofunnar voru að mestu á eigin ferðalögum. Þar leynist þó undurfögur ljósmynd af þremur konum sem horfa yfir kyrran vatnsflöt Ölfusár, mynd sem hefur birts mjög víða og margir landsmenn þekkja. Sigríður og Steinunn gáfu safn sitt til Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni í áföngum fyrst árið 1955 og síðan þegar stofan var lögð niður. Safnið telur um 31.470 plötur og 12.656 passamyndaplötur.