Reykholt - Archaeological Investigations at a High Status Farm in Western Iceland
Guðrún Sveinbjarnardóttir
Þjóðminjasafn Íslands og Snorrastofa gáfu út Reykholt - Archaeological Investigations at a High Status Farm in Western Icelandeftir dr. Guðrúnu Sveinbjarnardóttur. Í bókinni eru einnig kaflar eftir 20 innlenda og erlenda sérfræðinga sem komu að rannsókninni.
Reykholt í Borgarfirði er meðal merkustu sögu- og minjastaða Íslands. Þar var líklega reist kirkja á 11. öld og kirkjumiðstöð komið á stofn á 12. öld, og var staðurinn löngum auðugur að eignum og ítökum. Þekktasti ábúandi staðarins er sennilega Snorri Sturluson á þrettándu öld. Fyrstu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu sem voru framkvæmdar í rannsóknarskyni fóru fram á árunum 1987-1989, og svo aftur 1997-2003. Svo virðist sem búið hafi verið á bænum frá því snemma á 11. öld og allt fram undir miðja 20. öld. Fyrstu híbýlin hafa verið hefðbundin langhús úr torfi, en á 12. og 13. öld virðast byggingar á staðnum hafa verið stakar timburbyggingar, af gerð sem þekkist ekki annarsstaðar á Íslandi en á sér hliðstæður til dæmis í Noregi. Lýsingar í rituðum samtímaheimildum staðfesta að byggingar í Reykholti voru einstakar og öðruvísi en aðrar íslenskar byggingar á sama tíma. Rannsóknirnar benda til þess að á staðnum hafi verið stunduð kornrækt og verslun við útlönd, en það eru þó helst glæsileg mannvirki staðarins sem vitna um mikilvæga stöðu hans á miðöldum. Einnig eru á svæðinu skýrar vísbendingar um notkun jarðhita allt frá miðöldum. Þetta er í fyrsta sinn að slíkar minjar finnast á Íslandi.
Dr. Guðrún Sveinbjarnardóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, BA prófi í sagnfræði og þýsku frá Háskóla Íslands, MPhil prófi í miðaldafornleifafræði frá University College London og doktorsprófi frá Háskólanum í Birmingham. Hún hefur starfað bæði hérlendis og erlendis við kennslu og rannsóknir á sviði fornleifafræði og hefur verið verkefnisstjóri Reykholtsrannsókna frá upphafi. Guðrún gegnir því starfi nú á vegum Snorrastofu og er heiðurslektor við Institute of Archaeology í University College London.
Bókin er gefin út í samstarfi Þjóðminjasafns Íslands og Snorrastofu. Hún er til sölu í Safnbúð Þjóðminjasafnsins, en þar er einnig hægt að panta hana í síma 530 2203 eða með tölvupósti á netfangið: safnbud@thjodminjasafn.is.