Börn á safninu
  • Með verkum handanna

Refilsaumur - Með verkum handanna

Fræðsla, verkefni, leiðbeiningar og heimildir í máli í myndum sem tengjast sýningunni Með verkum handanna, en á henni eru íslensk refilsaumsklæði sem varðveittust hér á landi og eru einstök listaverk í alþjóðlegu samhengi. 

Refilsaumur

Refilsaumur er saumgerð sem dregur nafn sitt af orðinu refill. Reflar voru skrautleg tjöld úr ull eða líni sem höfð voru til þess að tjalda að innan bæði kirkjur og híbýli fólks fyrr á tíð.

Refilsaumur er eitt útsaumsspora sem notuð voru á miðöldum og er afbrigði af útsaumi sem nefndur er lagður saumur.

Þessi meistaraverk íslenskrar miðaldalistar voru unnin af listfengum konum sem bjuggu yfir þekkingu og þjálfun í vefnaði og útsaumi, spuna, jurtalitun, teikningum og sagnaarfinum.

Refilsaumur lagðist af víðast um Evrópu þegar freskur og olíumálverk ruddu sér til rúms en lifði lengur á Íslandi enda yngstu verkin á sýningunni frá 17. öld.  Bayeux refillinn í Frakklandi sem er um 70 metra langur og 50 cm hár er frægasti og best varðveitti refill sögunnar.

Refilsaumur er notaður til að fylla inn í fleti, svipað og að mála málverk. Stundum virkar hann eins og teiknimyndir nútímans og með honum eru sagðar sögur.

Gert er ráð fyrir að refilsaumur hafi verið stundaður frá landnámstíma á Íslandi og hafi verið mikilvæg verslunar- og jafnvel útflutningsvara á miðöldum á Íslandi. Þannig hafa konur lagt sitt af mörkunum fyrir efnahag þjóðarinnar.

Benda má á meistaraverkefni Lindu Salbjargar Guðmundsdóttur sem dýpkar þekkingu á refilsaumi á Þjóðminjasafninu. Sjá nánar hér að neðan.

Verkefni, púðaver eða veggmynd

Kennslugögn: Líndúkur eða lakaléreft sem hentar til útsaums ca 10x10 cm. Ullargarn, nálar, saumahringir, fatakrít eða trélitur.

Teiknið einfalda mynd á efnið. Saumið útlínur og fyllið inn í fleti með refilsaumi. Gangið frá endum. Gangið frá verkefninu sem miðju í púðaveri eða sem veggmynd.

Refilsaumur er útskýrður í nokkrum þrepum:

 Teiknið mynd á textíl

  1. Saumið útlínur myndarinnar með varplegg, lögðum þræði, blómstursaumi eða steypilykkju
  2. Fyllið í fleti með því að sauma löng þétt spor yfir myndflötinn á réttunni. Refilsaumur sparar þráðinn með því að láta hann aðeins liggja á réttunni en ekki röngunni
  3. Saumið nú þráð (í sama lit eða öðrum) þvert yfir löngu sporin.
  4. Að lokum er þráðurinn sem liggur yfir festur niður með stuttum sporum, sjá mynd:

    Untitled-design-2023-11-08T144150.174

             Mynd úr Hugur og hönd, 1983. Gunnlaugur S. E. Briem teiknaði fyrir Elsu E. Guðjónsson.

Skýringar með mynd
1: varpleggur
2: lagður þráður
3: blómstursaumsspor
4: steypilykkja
5-6: refilsaumur

Bækur og annað efni um refilsaum:

Elsa E. Guðjónsson. (2023). Með verkum handanna. Þjóðminjasafn Íslands.

Elsa E. Guðjónsson (2008). Íslenskur útsaumur. Elsa E. Guðjónsson. (3. útgáfa, endurskoðuð).

Elsa E. Guðjónsson. (1983). Fjórar íslenskar útsaumsgerðir. Hugur og hönd, 19. árgangur (1. tölublað) bls 26-36. 

Linda Salbjörg Guðmundsdóttir. (2021). Að læratil að breytast og þroskast Safnfræðsla í takt við samfélagsbreytingar á 21.öld. [Lokaverkefni til MA-gráðu]. Skemman.

Bayeux refilinn í Frakklandi. Þegar síðan er skoðuð er hægtað þysja inn til að skoða saumsporin

Hér er svo vídeó sem sýnir refilsaum:

Hér má skoða vídeó sem sýnir refilsaum :