Fréttir

17.000 gripir frá Viðeyjarrannsókninni afhentir Þjóðminjasafninu

28.9.2020

Eitt af lögbundnum hlutverkum Þjóðminjasafns Íslands er að taka á móti og varðveita gögn úr leyfisskyldum fornleifarannsóknum. Á síðasta ári tók Þjóðminjasafn Íslands til dæmis við gripum og gögnum úr 40 fornleifarannsóknum og varðveitir safnið um það bil 200.000 jarðfundna gripi. 

Á dögunum bættist svo heldur betur í safnið þegar Borgarsögusafn Reykjavíkur afhenti 17.000 jarðfundna gripi frá Viðeyjarrannsókninni sem fór fram á tímabilinu 1987-1995 en í öllum þessum kössum á myndinni lúra dýrgripir sem grafnir voru úr jörðu við rannsóknir á meðal annars klaustrinu sem þar stóð. Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður stýrði rannsókninni og á tímabili í samvinnu við Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing. Fornleifarannsóknin í Viðey er ein umfangsmesta fornleifarannsókn á Íslandi og önnur stærsta, í gripanúmerum talið, sem afhent er Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu.

Við taka annasamir dagar hjá sérfræðingum Þjóðminjasafns Ísands við að meta gögnin, endurpakka og koma þeim fyrir við kjöraðstæður í nýrri Varðveislu og rannsóknarmiðstöð Þjóðminjasafns Íslands á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði. Markmiðið er að tryggja varðveislu heimilda rannsóknarinnar og að gera gögn rannsóknarinnar betur aðgengileg fyrir almenning, námsmenn og fræðimenn.

Um þessar mundir eru uppi tvær sérsýningar sem tengjast gripum og gögnum úr fornleifarannsóknum. Saga úr jörðu – Hofstaðir í Mývatnssveit og Kirkjur Íslands – Leitin af klaustrunum. Á seinni sýningunni er einmitt gripur, líkneski af Dórótheu, sem fannst í Viðey.