Fréttir

Hví voru íslenskar fornsögur ekki skrifaðar á latínu?

1.10.2018

Þriðjudaginn 9. október kl. 12 flytur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. 

Öldum saman hafa menn velt því fyrir sér af hverju hinir fámennu Íslendingar skrifuðu á miðöldum langtum viðameiri bókmenntir en aðrar þjóðir í Norðurálfu á sama tíma. Ekki síður hafa menn undrast hví þær voru skráðar á móðurmáli en ekki hinni alþjóðlegu latínu. Margar misgáfulegar tilgátur hafa verið settar fram en engin viðhlítandi skýring enn komið á daginn. Árni Björnsson ætlar að freista þess að feta í fótspor barnsins í Nýju fötunum keisarans og benda á fremur einfalda lausn.

Árni Björnsson fæddist í Dölum vestur 1932. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953. Kandídat í íslenskum fræðum frá HÍ 1961. Doktor í menningarsögu frá HÍ 1995. Sendikennari við þýska háskóla 1961–65. Vann á Árnastofnun og kenndi við MR 1965–68. Forstöðumaður þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1969–1994. Ritstjóri við Þjóðminjasafnið 1995–2000. Hefur samið mörg rit um íslenska menningarsögu, einkum hátíðisdaga ársins og í mannlífinu, en auk þess komið víða við.

Verið öll velkomin.