Fréttir

Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns formlega vígð

9.12.2019

Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands var formlega vígð fimmtudaginn 5. desember síðastliðinn. Í miðstöðinni, sem er staðsett að Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði, eru varðveittar þjóðminjar við kjöraðstæður. 

Í húsinu er sérstakt tæknirými sem stýrir raka- og hitastigi inn í hvert rými, sem tryggir bestu aðstæður fyrir muni hvort sem eru lífræn efni, viðkvæmir textílar, jarðfundnar minjar, málmhlutir og svo mætti lengi telja. Einnig er stórbætt aðstaða til að taka við, rannsaka og varðveita þær minjar sem koma í ljós við fornleifarannsóknir.

Á Tjarnarvöllum starfar fjöldi sérfræðinga Þjóðminjasafns Íslands en auk þess er þar aðstaða fyrir fræði- og vísindamenn, nemendur, kennara og aðra samstarfsaðila.