Fréttir: október 2020

Þjóðminjar í öruggri vörslu hjá Þjóðminjasafni Íslands - 27.10.2020

Málefnaleg og þörf umræða í fréttaskýringaþættinum Kveik 8. október sl. varpaði ljósi á mikilvægi varðveislu íslenskra menningarverðmæta. Í þættinum kom fram að víða eru ófullnægjandi aðstæður til varðveislu menningararfsins en aðeins gafst þar ráðrúm til að tæpa á þessu mikilvæga málefni sem varðar öryggi menningarminja um land allt. Fjallað var um aðstæður fjölmargra opinberra stofnana sem gegna því lögbundna hlutverki að varðveita menningu og sögu þjóðarinnar. Bent var á að stjórnsýsla safna og menningarstofnana er dreifð og flókin og sérhæfing mismunandi. Það kallar á samræmd viðbrögð stjórnvalda og aukna áherslu á samhenta stjórnsýslu í málaflokknum. Sameiginleg sýn allra sem að honum koma er þó að sjálfsögðu sú að tryggja örugga varðveislu minja, sem og gott aðgengi til þekkingarsköpunar og þróunar. Safnastefna og ný heildarstefnumótun um málefni menningararfs undirstrikar mikilvægi þessa. Verðug verkefni eru framundan við innviðauppbyggingu á fagsviðinu. Stjórnvöld hafa þegar markað stefnu um úrbætur, sem birtist m.a. í nýrri áætlun um ríkisfjármál, og gefur hún fyrirheit um spennandi og samhent átak á komandi árum. Í þessu samhengi er þó full ástæða til að minna á að margt hefur áunnist og mikilvægar ákvarðanir til úrbóta verið teknar í safna- og varðveislumálum í gegnum tíðina.

Lesa meira