Fréttir

Aðventudagskrá í Þjóðminjasafni Íslands

4.12.2020

Þjóðminjasafn Íslands hefur nú opnað aftur eftir lokanir vegna Covid-19 sóttvarnareglna. Fjölskyldur eru sérstaklega velkomnar að koma og njóta jóladagskrár safnsins í öruggu umhverfi því safnið er stórt og auðvelt að halda tveggja metra fjarlægð. 

Þjóðminjasafnið hefur um árabil tekið á móti fjölskyldum og kynnt rammíslenskar jólahefðir fyrir nýjum kynslóðum barna, m.a. með heimsóknum frá íslensku jólasveinunum, Grýlu og Leppalúða, en auk þess fær jólakötturinn sitt pláss í ár með sérstökum ratleik. Miði inn á safnið kostar 2000 krónur og gildir sem aðgöngumiði í eitt ár. Frítt er fyrir börn, yngri en 18 ára. Safnið verður opið alla daga nema mánudaga frá 10 til 17.

Frekari upplýsingar um viðburði á aðventunni

Jólasveinarnir þjóðlegu mæta í sínu fínasta pússi í Þjóðminjasafnið á slaginu kl. 11 frá og með 12. desember. Þeir klæðast fatnaði af gamla taginu og útskýra kenjar sínar og klæki fyrir börnunum. Í ljósi aðstæðna verða þessir viðburðir í streymi í gegnum YouTube rás safnsins. Það gæti því verið tilvalið fyrir yngri bekki grunnskóla og leikskólabörn að gera sér glaða stund og horfa saman á útsendingar og kynnast á þann hátt þessum skemmtilegu og hrekkjóttu sveinum. Streymið má nálgast hér.

Á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu verður ratleikurinn: Hvar er jólakötturinn? Jólakötturinn slapp inn á safnið þrátt fyrir lokanir og hefur falið sig á tíu stöðum innan um muni sýningarinnar. Þá er kjörið fyrir fjölskyldur að heimsækja safnið, njóta samverustundar og hjálpa okkur að finna köttinn.

Grýla og Leppalúði eru vön að koma við á Þjóðminjasafninu stuttu áður en jólasveinarnir, synir þeirra, koma af fjöllum hver á fætur öðrum og líta við á safninu til að hitta börnin. Tröllahjónin ætla að láta sjá sig sunnudaginn 6. desember kl. 14. Tónlistarkonan Ragnheiður Gröndal flytur nokkur lög á meðan beðið er eftir þeim. Vegna fjöldatakmarkana verður viðburðinum eingöngu streymt á YouTube rás safnsins.

Það er því tilvalið að koma sér vel fyrir heima og horfa á tröllahjónin í beinni útsendingu ásamt tónlistarkonunni Ragnheiði Gröndal.

Á tímum sem þessum þarf að hugsa í lausnum, bjóða bæði upp á viðveru sem og streymi. Miklar sóttvarnaráðstafanir eru á safninu. Safnið er stórt og því auðvelt að virða tveggja metra regluna. Einnig er því skipt niður í nokkur sóttvarnarhólf og er leyfilegur fjöldi tíu manns í hverju hólfi. Grímuskylda er þar sem ekki hægt að tryggja tveggja metra regluna og skylda í Safnbúðinni.

Verið velkomin.