Fréttir: febrúar 2022

Minningaorð. Þórður Tómasson í Skógum - 5.2.2022

Með fáum orðum minnumst við Þórðar Tómassonar í Skógum. Þórður var safnvörður Skógasafns frá stofnun þess árið 1949 og starfaði þar um áratuga skeið fram á efri ár. Hann var safnmaður af heilum hug og sinnti starfi sínu af mikilli hugsjón og framsýni. Safnsvæði Skógasafns ber þess fagurt vitnis. Hann var metnaðarfullur fagmaður sem ávallt vildi veg Skógasafns sem mestan. Honum var þar annt um hvert framfaraskref, gömlu húsin sem unnt var að hlúa að á svæðinu, safnhúsin sem hýstu faglega starfsemi og safnkirkjuna fögru sem vígð var fyrir tveimur áratugum. Þórður bauð gesti ávallt velkomna í safnið og fræddi, spilaði og söng af einlægri gestrisni og starfsgleði. Með safnastarfi sínu var honum annt um að varðveita einkenni þess samfélags sem umbyltist með iðnvæðingunni og leggja jafnframt grunn að framtíðarstarfi sem byggði á gömlum merg þekkingar. Þar sá hann fyrir sér framsækið safn á tímum ferðaþjónustu og faglegra áherslna samtímans. Hann gladdist yfir árangri og góðu starfi arftaka sinna í safninu og miðlaði til þeirra af sinni reynslu. Vert er að þakka hið ríkulega veganesti Þórðar til framtíðar.

Lesa meira