Fréttir
  • Nesstofa

60 milljóna króna styrkur frá A.P. Møller sjóðnum til rannsóknarsamstarfs og sýningarhalds í Nesstofu

20.11.2023

Danski sjóðurinn A.P. Møller og Hustru Chastine Mc-Kinney Møllers Fond til almene Formaal hefur ákveðið að styrkja nýtt rannsóknarverkefni og sýningu í Nesstofu sem tengist Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ríflega 60 milljónir króna. Mótframlag íslenska ríkisins er 45 milljónir króna sem menningar- og viðskiptaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið munu fjármagna í sameiningu.

Menningar- og viðskiptaráðherra og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra kynntu þetta metnaðarfulla dansk-íslenska verkefni fyrir ríkisstjórn í vikunni. Verkefnið er liður í að heiðra langvinna og árangursríka vísindasamvinnu þjóðanna og efla hana til framtíðar.

„Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar var mikið þrekvirki á sínum tíma. Við erum lánsöm að eiga þessa dýrmætu heimild með náttúru- og þjóðlífslýsingum. Með þessu verkefni gefst dönsku og íslensku fræðafólki tækifæri til að leiða saman hesta sína og verður afrakstrinum bæði miðlað til fræðasamfélagsins og almennings. Ég vænti þess að úr verði þverfaglegt vísindasamstarf sem gefi okkur nýjan skilning á sögunni. Það er líka sérlega ánægjulegt að almenningur fær að njóta afraksturs verkefnisins í nýstárlegri sýningu sem verður sett upp í Nesstofu sem tilheyrir glæsilegu húsasafni Þjóðminjasafnsins,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, segir menningar- og viðskiptaráðherra.

,,Þetta er saga landkönnuða sem komu til Íslands og hún hefur nýst vísindamönnum í jarðfræði, líffræði og ekki síst sögu og mannfræði. Verkefnið mun tengja Ferðabókina við nútímann og það sem var að gerast utan Íslands á tímum Eggerts og Bjarna. Þá gefur samstarfið íslenskum rannsakendum og vísindamönnum aukin tækifæri. Til þess að geta gert áætlanir um framtíðina þurfum við að skilja fortíðina og okkar sameignlegu norrænu sögu,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Verkefnið hverfist um Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Styrknum skal annars vegar varið til tímabundinnar ráðningar tveggja fræðimanna, dansks og íslensks, til að rannsaka Ferðabókina í samhengi við aðra danska og evrópska rannsóknaleiðangra á 18. öld. Markmiðið er að móta efnivið fyrir nýstárlega sýningu í Nesstofu á Seltjarnarnesi tengda Ferðabókinni og öðrum rannsóknaleiðöngrum frá 18. öld og þann jarðveg sem þeir voru sprottnir úr. Á sýningunni verður lögð áhersla á breiða nálgun á viðfangsefnið og verða nýir miðlar nýttir til þess að miðla efninu á nýstárlegan, skapandi og frumlegan hátt.

Mikil viðurkenning

Forsaga málsins er að í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins árið 2019 ákvað ríkisstjórnin að efna til sérstaks átaks í því skyni að heiðra langvinnt og árangursríkt vísindasamstarf Dana og Íslendinga og efla það til framtíðar. Þá var ákveðið að Nesstofa á Seltjarnarnesi yrði helguð dansk-íslensku fræðasamstarfi. Í framhaldinu var skipuð verkefnisstjórn sem var falið að vinna að framgangi þessara mála í samvinnu við Dani. Verkefnastjórnina skipa Vilhelmína Jónsdóttir sérfræðingur í menningarmálaráðuneytinu, Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður, og Auður Hauksdóttir prófessor emerita í dönsku, sem fer fyrir hópnum.

Verkefnisstjórn, í samstarfi við Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum , sótti um styrk úr A.P. Møller -sjóðnum en umsóknin var með skilyrtu loforði um mótframlag íslenska ríkisins að fjárhæð 45 milljónir króna, fengist styrkur til verkefnisins.

Nú hefur sjóðurinn ákveðið að styrkja framangreint verkefni um ríflega 60 milljónir króna (3 milljónir danskra króna). A.P. Møller-sjóðurinn er samkeppnissjóður og því felst mikil viðurkenning í styrkveitingunni og ljóst að um verðugt og metnaðarfullt verkefni er að ræða.
Verkefnið hefur sterkar rætur í samstarfi Íslands og Danmerkur fyrr á tímum en að auki breiða skírskotun til samtímans, Norðurslóða og alþjóðlegra rannsókna á náttúru, menningu og þjóðlífi og er því líklegt til að vekja jákvæða athygli og vera haldbært framlag til rannsóknasamstarfs landanna tveggja. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Háskóla Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands.

Fréttin birtist á vef Stjórnarráðs Íslands.