Fréttir

Eyri á Eyrarbakka tekið til varðveislu í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands

9.4.2021

Í desember 2020 var gengið frá kaupum ríkissjóðs á Eyri við Eyrargötu 39 A á Eyrarbakka ásamt innbúi öllu til varðveislu í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. 

Eyri var byggt árið 1907 af Sigurði Gíslasyni smið á Eyrarbakka sem bjó í húsinu til 1910 en seldi það þá hjónunum Guðfinni Þórarinssyni formanni frá Nýjabæ á Eyrarbakka og Rannveigu Jónsdóttur húsfreyju og verkakonu frá Litlu Háeyri á Eyrarbakka. Guðfinnur fórst fórst með bát sínum Sæfara ÁR 69 ásamt sjö manna áhöfn í innsiglingunni á Eyrarbakka 5. apríl 1927. Rannveig bjó áfram á Eyri til dauðadags 8. september 1965. Börn þeirra Hanna og Óskar eignuðust þá húsið og var það síðan notað sem sumarbústaður. Síðar komst húsið í eigu barna Óskars og konu hans Hallveigar Ólafsdóttur; Vilhjálms, Jónínu, Ólafs og Rannveigar. Þau seldu Ríkissjóði húsið í desember 2020. Frá því að Rannveig Jónsdóttir féll frá 1965 gættu afkomendur hennar og Guðfinns þess að viðhalda minningu þeirra með því að halda húsinu vel við og breyta í engu innri gerð þess né húsbúnaði. Húsið er óvenjulega vel varðveitt að innan, í mörgu upprunalegt og í því er upprunalegur húsbúanður að hluta til. Húsið er í góðu ástandi en árið 2018 var skipt um bárujárn á veggjum, skúrþaki og allir gluggar endursmíðaðir nema í vesturgafli, en sá gluggi er upprunalegur frá 1907.

Picture3

Picture2









Í eldhúsi, stofa t.v. og herbergi t.h. Við vesturvegg er stigi upp í risið.

Eyri á Eyrarbakka er bárujárnsklætt timburhús af alþýðugerð byggt árið 1907 og er aldursfriðað. Húsið er 35 m2 að grunnfleti, hæð og ris og inngönguskúr við vesturgafl. Húsið stendur á steinhlöðnum kjallara og brúttóstærðir þess eru 60,7 m2 og 163 m3. Á suðurhlið hússins og austurgafli eru tveir krosspóstagluggar með fjórum rúðum hver, einn á norðurhlið og annar uppi á vesturstafni. Útidyr eru á norðurgafli skúrs og lítill gluggi á suðurgafli. Þakið er krossreist og á því skorsteinn. Inn af útidyrum er anddyri og úr því gengið í baðherbergi í suðurhluta inngönguskúrs, niður í kjallara og upp fjögur þrep í eldhús. Úr eldhúsi er gengið til stofu við austurgafl hússins og í herbergi við suðurhlið. Við vesturgafl eldhúss er stigi upp í ris. Herbergi er við vesturgafl og úr því gengið í herbergi við austurgafl.

Varðveislugildi hússins er mikið, það hefur mikið menningarsögulegt og byggingarlistarlegt gildi, upprunalegt gildi þess er óvenju mikið og tæknilegt ástand gott. Húsið er mikilvægur hluti gögumyndar Eyrargötu og stendur meðal húsa frá því í byrjun 20. aldar. Það fer ekki á milli mála að Eyri á fullt erindi í húsasafn Þjóðminjasafns Íslands en ekkert timburhús af alþýðugerð er í húsasafninu.

Auk Eyrar eru á Eyrarbakka fleiri hús í húsasafninu; Húsið frá 1765, sem var heimili verslunarstjóra Eyrarbakkaverslunarinnar, og sambyggt því er Assistentahúsið frá 1881, þar sem verslunarþjónar Lefolii-verslunarinnar bjuggu. Á lóðinni eru ennfremur útihús; þurrkhjallur, hesthús og fjós. Þessi hús hafa öll verið í umsjá Byggðasafns Árnesinga frá 1995 og er stefnt að því að Byggðasafnið taki við umsjón með Eyri og hafi það til sýnis fyrir almenning frá og með árinu 2022.

Guðmundur Lúther Hafsteinsson, sviðsstjóri húsasafns.

Picture4

Stofa í austurhluta hússins, veggfóður líklega sett á veggi fljótlega eftir smíði hússins, húsbúnaður upprunalegur.

Picture5

Herbergi í vesturenda upp af stiga og horft inn í herbergi í austurenda.