Fréttir
  • Kassar

Gögn úr Reykjavíkurupp-gröftum Borgarsögusafns afhent Þjóðminjasafni Íslands

Margra ára vinnu lokið.

23.10.2023

Borgarsögusafn hefur nú formlega afhent Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu öll gögn úr Reykjavíkuruppgröftum á tímabilinu 1972-1999. 

Með „formlegri afhendingu“ er átt við að Þjóðminjasafn Íslands hefur farið yfir öll gögn rannsóknanna, metið þau, endurpakkað eftir þörfum og skilað skýrslu um afhendinguna til Minjastofnunar Íslands sem hefur eftirlit með öllum fornleifarannsóknum í landinu. Umsýsla Þjóðminjasafnsins varðandi þessar rannsóknir hefur tekið tvö og hálft ár enda að mörgu að hyggja, meðal annars þarf að ganga úr skugga um að öll gögn séu til staðar.

Um mikilvægan og merkilegan áfanga er að ræða enda eru undir meðal annars grundvallarrannsóknir í íslenskri fornleifafræði eins og í Viðey, á Suðurgötu 3-5 og Arnarhóli. Rannsóknirnar voru mjög umfangsmiklar og heildarfjöldi gagna sem hefur nú verið afhentur er rétt undir 30.000 safnnúmerum í 500 kössum úr 14 uppgröftum.

Gögnin eru nú á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði þar sem Rannsóknar- og varðveislumiðstöð Þjóðminjasafns Íslands er til húsa. Þar fer vel um þau. Margir hafa lagt hönd á plóg við afhendingu gagnanna bæði á Þjóðminjasafninu og á Borgarsögusafninu og verkefnið til vitnis um hið góða samstarf milli safnanna.

Videy-nb-2_1698060975296Hér hefur verið gengið frá hluta gripanna frá Viðey 1987-1995.

Afhending-gagnaFundur á Tjarnarvöllum: Hulda Björk Guðmundsdóttir, Anna Lísa Guðmundsdóttir, Margrét Björk Magnúsdóttir og Steinunn Guðmundsdóttir. 

Mynd efst á síðu: Gripir frágengnir á Tjarnarvöllum.