Fréttir
  • Með verkum handanna

Með verkum handanna - Íslenskur refilsaumur fyrri alda eftir Elsu E. Guðjónsson

Creative Hands - Icelandic laid-and-couched embroideries of past centuries eftir Elsu E. Guðjónsson

3.10.2023

Útgáfudagur 5. október

Í verkinu eru lagðar fram áratugarannsóknir Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings (1924-2010) á þeim fimmtán íslensku refilsaumsklæðum sem varðveist hafa. Í klæðunum er að finna einhver stórbrotnustu listaverk Íslendinga frá fyrri tímum og þau skipa sérstakan sess í alþjóðlegu samhengi.

Elsa skrifar af nákvæmni og alúð um feril, myndefni, tækni og sögulegt og listrænt samhengi hvers klæðis. Rannsóknir hennar eru einstakar í sinni röð og bókin, sem prýdd er hundruðum ljósmynda, ber þeim fagurt vitni.

Lilja Árnadóttir fyrrum sviðsstjóri á Þjóðminjasafni Íslands og samstarfskona Elsu til margra ára, lauk við verkið og bjó til prentunar. Sigrún Sigvaldadóttir hjá Hunangi hannaði bókina. 

Útgáfunni verður fagnað í Þjóðminjasafni Íslands 5. október kl. 17. Verið öll velkomin.

Vefur_

Sýning í Bogasal: Með verkum handanna

Í nóvember verður opnuð samnefnd sýning í Bogasal á klæðunum fimmtán. Íslensku refilsaumsklæðin sem eru í eigu safna í Danmörku, Frakklandi og Hollandi hafa verið fengin að láni af þessu tilefni. Þjóðminjasafnið fagnar 160 ára afmæli sínu með þessari merku sýningu.