Fréttir

Páskar 2022

30.3.2022

Verið velkomin á Þjóðminjasafn Íslands í páskafríinu. Safnið er opið alla daga frá kl. 10 - 17 nema á páskadag er opið frá kl. 10 - 14 og lokað annan í páskum. Heimsókn í safnið er skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna og við bjóðum uppá margs konar leiðir til að upplifa sýningarnar okkar. Ókeypis fyrir börn yngri en 18 ára.

Hægt er að ganga um grunnsýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Sérstök hljóðleiðsögn, Regnbogaþráðurinn, fjallar um hinsegin sögu á Íslandi. Svo er hægt að horfa á myndskeið á margmiðlunarskjáum, uppgötva litríka, viðkvæma gripi í skúffum og hlusta á leikþætti um fullorðinn og barn frá mismunandi tímaskeiðum í Íslandssögunni. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og útskurðarletur til að herma eftir er til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.

Skemmtiganga á eigin vegum með tón, lykt og lit. Hvernig líður tíminn á Þjóðminjasafni? Hvaða tón er þar að finna? Og hvaða lykt? Hvernig er að skoða umhverfið í gegnum litað spjald? Í þessari skemmtigöngu verður notast við ferðatösku með ýmsum munum sem virkja skilningarvitin á leiðinni í gegnum safnið. Töskurnar fást í móttöku safnsins.

Ratleikur og safnabingó

Ratleikir eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á líflegan hátt. Leikirnir henta allri fjölskyldunni og er sérstaklega gaman fyrir foreldra og börn að leysa þrautirnar saman. Hægt er að nálgast ratleikina í móttöku Þjóðminjasafnsins og eru viðfangsefnin margbreytileg. Nú eru komnir nýir ratleikir sem nefnast Leitin að rúnaristunum og Safnabingó.

Í safninu eru þrjár sérsýningar; Straumnes - ljósmyndir eftir Marínó Thorlacius, Þar sem rósir spruttu í snjó – sýning á ljósmyndum Vassilis Triantis og Hofstaðir. Saga úr jörðu - sem fjallar um fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit. 

Á grunnsýningunni eru gripir með rúnaristum og áletrunum. Í ratleik, sem gerður var í tilefni af Víkingaþrautinni, eru þessir sýningargripir leitaðir uppi. Ratleikinn má nálgast í móttöku safnsins. Í tengslum við ratleikinn má spreyta sig á gerð bandrúnar. Bandrúnir eru tvær eða fleiri rúnir sem er blandað saman í eitt tákn. Þær eru stundum notaðar til að tákna fyrstu stafina í nafni og þannig er hægt að merkja sér hluti. Allt efni í stimpil með bandrúninni þinni er til taks í Stofu.

Páskar 2022 Opið
14. apríl Skírdagur. 10 - 17
15. apríl Föstudagurinn langi. 10 - 17
16. apríl 10 - 17
17. apríl Páskadagur. 10 - 14
18. apríl Lokað (mánudagur)

Aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið kostar 2.500 kr. fyrir fullorðna og gildir sem árskort, en frítt er fyrir börn yngri en 18 ára. Allir hafa því nægan tíma til að njóta þess sem safnið hefur upp á að bjóða og þið eruð velkomin eins oft og þið viljið. Árskortið gildir sem aðgangur að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins.