Fréttir

Þjóðminjasafn Íslands hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði

31.5.2021

Þjóðminjasafn Íslands fær styrk úr Barnamenningarsjóði til þess að standa straum af valdeflandi sumarnámskeiði fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Krökkunum er boðið til nærandi samveru þar sem sköpun, upplifun og uppgötvun ræður för.

Námskeiðið tengir saman útivist, rannsókn á safnkosti Þjóðminjasafns Íslands og þjálfun í tálgun og beitingu bitverkfæra til að móta við. Það tengir uppgötvun á sögu og menningu þjóðar við upplifun og sköpun. Verkefnið er samstarf Jóhönnu Bergmann og Önnu Leif Auðar Elídóttur, safnkennara Þjóðminjasafnsins, Ólafs Oddsonar, tálgumeistara, auk Rauða krossins sem hefur milligöngu um þátttökuboð til barna í fjölskyldum sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi eða eru nýir innflytjendur. Í samstarfi við hjálparstofnanir er börnum fjölskyldna sem þangað leita boðin þátttaka. Þannig er tryggt að í nemendahópnum séu líka börn sem eru þegar með rætur á Íslandi.

Um er að ræða þrjú vikulöng sumarnámskeið, hálfan daginn, sem fara fram innan veggja safnsins og utan en skógurinn í Hólavallakirkjugarði þjónar sem grenndarskógur fyrir útinámið. Námskeiðin byggja á þverfaglegri nálgun og samsköpun allra þátttakenda.

Í þessari þriðju úthlutun úr Barnamenningarsjóði hlutu 37 verkefni styrk af þeim 113 sem sóttu um. Safnkennararnir hlakka til að hrinda verkefninu í framkvæmd en þetta er í fyrsta sinn sem Þjóðminjasafnið skipuleggur sumarnámskeið fyrir börn.

Ljósmynd: Ólafur Oddsson tálgumeistari, Jóhanna Bergmann safnkennari og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við úthlutunarathöfn í Hörpu 28. maí.