Þjóðminjasafn Íslands leitar eftir frásögnum um laufabrauðsgerð
Þjóðminjasafn Íslands leitar eftir frásögnum um laufabrauðsgerð, eigin reynslu eða upplifun fólks af henni í samtímanum. Söfnunin er unnin í samstarfi við verkefnið Lifandi hefðir hjá Stofnun Árna Magnússonar. og meistaranema í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Á grundvelli svara við spurningaskránni, og viðtala sem tekin hafa verið, skapast fræðilegar undirstöður til að vinna að hugsanlegri tilnefningu laufabrauðshefðarinnar á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf heims.
Þær frásagnir sem berast verða varðveittar í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi og gerðar öllum aðgengilegar, nema annað sé tekið fram. Nöfn heimildarmanna birtast ekki á netinu.
Laufabrauð er fyrst nefnt í heimildum frá 17. öld, en ekki er vitað hvenær það var fyrst búið til. Þess er næst getið á síðari hluta 19. aldar og er þá aðallega bundið við Norður- og Norðausturland. Brauðið var einkum haft til hátíðarbrigða um jólin. Laufabrauðsgerð hefur átt auknum vinsældum að fagna og víða verið tekin upp, sérstaklega eftir 1950.
Söfnuninni er lokið. Hér má nálgast svörin á Sarpi.