Fréttir
  • Islensku-safnaverdlaunin

Með verkum handanna er tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna 2024

26.4.2024

Á sumardaginn fyrsta voru tilnefningar til Íslensku safnaverðlaunanna tilkynntar. Sýningin Með verkum handanna hlaut tilnefningu. Íslensku safnaverðlaunin eru viðurkenning sem fellur í skaut íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi á sínu sviði.

Þjóðminjasafn Íslands er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir sýninguna Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda ásamt útgáfu og dagskrá.

Sýningin Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda var sett upp í tilefni útgáfu samnefndrar bókar eftir Elsu E. Guðjónsson, fyrrverandi deildarstjóra textíl- og búningadeildar Þjóðminjasafns Íslands, en var auk þess aðalviðburður afmælisdagskrár safnsins á 160 ára afmæli þess árið 2023.

Á sýningunni Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda er heildarsafn íslenskra refilsaumsverka saman komið en alls hafa fimmtán verk, hin skrautlegu tjöld, varðveist og teljast á meðal glæsilegustu listaverka þjóðarinnar. Öll verkin eru kirkjuklæði og innihalda refilsaum, ensk-norræna útsaumsgerð sem varðveittist á Íslandi. Um er að ræða tíu myndskreytt altarisklæði, stakan altarisvæng með refilsaumuðum borða, hökul með refilsaumuðum róðukrossi, andlitsmynd af Þorláki Skúlasyni biskup, altarisbrún með refilsaumaðri áletrun og myndskreyttan refil eða veggklæði. Tólf klæðanna eru frá síðmiðöldum og þau elstu frá því seint á 14. öld. Þrjú hin yngri eru frá sautjándu öld og talið er víst að það yngsta sé frá árinu 1677. Einnig er talið að miðaldaverkin hafi flest verið saumuð við nunnuklaustrin tvö að Kirkjubæ og Reynisstað eða við biskupsstólanna tvo og líklegt er að margar hendur hafi komið að gerð hvers klæðis en öll eru verkin vitnisburður um stórfenglegt listhandverk kvenna á miðöldum.

Sýningin byggir á níu verkum í eigu Þjóðminjasafns Íslands en sex eru í eigu þriggja erlendra safna: Louvre-safnsins í París, Þjóðminjasafns Dana og Rijksmuseum Twenthe í Hollandi. Hafa flest verkanna áður verið lánuð á sýningar Þjóðminjasafnsins en er þetta í fyrsta skipti sem þau fást og sjást samtímis á sýningu hjá safninu. Telst þetta til stórviðburðar og hefur Þjóðminjasafn Íslands gengist undir strangar kröfur eigendanna varðandi forvörslu, umhverfi og aðstæður sýningarinnar, sem er glæsilega hönnuð.

Ítarleg dagskrá viðburða var sett saman í tengslum við sýninguna sem hafa verið afar vel sóttir og vakið verðskuldaða athygli almennings. Haldin hafa verið tvö málþing með átta fyrirlesurum, auk fjölda sérfræðileiðsagna, hádegisfyrirlestrar með stökum sérfræðifyrirlestrum, barnaleiðsagnir og handverksnámskeið. Þar að auki var samin sérstök fræðsludagskrá, miðuð að nemendum á miðstigi grunnskóla, þar sem fjallað er um handverk miðalda með áherslu á mynd- og ritlist.

Sýningin Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda fylgir útgáfu samnefndrar bókar sem byggir á niðurstöðum áratugalangra rannsókna Elsu E. Guðjónsson sem lést árið 2010. Rannsóknir Elsu eru einstakar í sinni röð og einkennast skrifin af alúð og nákvæmni er kemur að tækni og ferli, ásamt sögulegu og listrænu samhengi hvers klæðis. Um er að ræða stórbrotið verk sem Lilja Árnadóttir, fyrrverandi samstarfskona Elsu og sviðsstjóri á Þjóðminjasafni Íslands, lauk við og bjó til prentunar og ritstýrði ásamt Merði Árnasyni. Hlaut bókin Fjöruverðlaunin 2024 í flokki fræðirita, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 og tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis 2024.

Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda – sýning, dagskrá og útgáfa – er einstakur viðburður í íslensku safnastarfi.