Fréttir

Traustar stofnanir með ótvírætt gildi fyrir samfélagið

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, fylgdi úr hlaði stefnu Þjóðminjasafnsins í menningarminjum á fundi með formanni, framkvæmdastjóra og sviðsstjórum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundurinn fór fram í húsakynnum sambandsins 1. mars síðastliðinn. Markmið safnastefnunnar er að hvetja til langtímahugsunar í safnastarfi og framsækinnar stefnumótunar.

Stefnumörkun fór fram í samráði við starfsfólk á viðurkenndum söfnum og eigendur um land allt. Voru söfnin heimsótt og landshlutafundir haldnir á árunum 2015 og 2016 þar sem árangur og áskoranir í safnastarfi var rætt. Þá byggir stefnan einnig á árangursmati fyrri stefnumörkunar.

Í formála þjóðminjavarðar segir m.a. að þetta sé í þriðja sinn sem Þjóðminjasafn Íslands gefi út safnastefnu og að miklar framfarir hafi orðið hér á landi í safnstarfi frá því að fyrsta stefnan leit dagsins ljós árið 2003.

Þá hafi við mótun stefnunnar verið samhugur um mikilvægi þess að laga starfsemi safna að aðstæðum í samtímanum þar sem aukin áhersla er lögð á samtal við gesti, menntunarhlutverk, forgangsröðun í varðveislu og skýra umhverfisvitund. Leiðarljós í því starfi sé framsýni.

Framtíðarsýn nýju stefnunnar er að starfsemi á íslenskum söfnum er metnaðarfull og lifandi og tengir saman fólk, staði og safnakost. Á söfnum megi finna innblástur og hughrif byggð á sann

gildi, auk þess sem söfnin eru traustar stofnanir með ótvírætt gildi fyrir samfélagið.

Sjálf stefnan skiptist niður í sex markmið og leiðir að þeim. Fyrir hvert markmið eru jafnframt kynnt tvö fyrirmyndarverkefni, sem sýna hvaða leiðir söfn á Íslandi hafa farið og sækja má innblástur til.

Frá fundi Margrétar Hallgrímsdóttur, þjóðminjavarðar ásamt samstarfsfólki, og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mynd: Samband íslenskra sveitafélaga.


Meginmarkhópur nýju safnastefnunnar er eigendur og starfsfólk viðurkenndra safna, sbr. safnalög frá 2011. Rekja má það til þess, að í þeim lögum voru settar fram grunnkröfur í faglegu safnastarfi með viðurkenningu safna. Það hafi svo aftur orðið til þess að núverandi stefna byggir á markmiðum umfram þessar grunnkröfur.

Þjóðminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins samkvæmt lögum og er meginhlutverk þess að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar. Safninu er ætlað að rækja hlutverk sitt m.a. með því að móta stefnu um söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun menningarog þjóðminja, og jafnframt stuðla að samvinnu menningarminjasafna, veita öðrum slíkum söfnum ráðgjöf og styðja faglega við hvers kyns verkefni þeirra. 

Hér má nálgast safnastefnuna.