Fréttir

Safnahúsið afhent Listasafni Íslands

2.3.2021

Að fenginni tillögu Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefur ráðherra tekið ákvörðun um að verkefni Safnahússins við Hverfisgötu færist til Listasafnsins frá og með 1. mars. Safnahúsið verður því áfram vettvangur fyrir spennandi safnastarf með nýrri grunnsýningu Listasafns Íslands sem ráðgert er að opna á Menningarnótt.

Núverandi grunnsýning Safnahússins, Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, var opnuð 18. apríl 2015 og lýkur á sumardaginn fyrsta, 22. apríl næstkomandi. Sjónarhorn er áhrifamikil sýning um sjónrænan menningararf þjóðarinnar. Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra.

Þjóðminjasafn Íslands hefur veitt húsinu forstöðu frá 2013 og á þeim tíma hefur rík áhersla verið lögð á samvinnu stofnana í anda nýsköpunar í opinberri stjórnsýslu. Það fer því vel á því nú að Listasafn Íslands taki við húsinu frá Þjóðminjasafninu.

Starfsfólk Þjóðminjasafns Íslands þakkar samstarfsstofnunum samfylgdina og góða samvinnu. Einnig óskum við okkar frábæra starfsfólki Safnahússins, sem nú flyst til Listasafnsins, velfarnaðar og þökkum því fyrir samstarfið.