Tímabil
  • Ufsakristur

1000-1200 Kristið goðaveldi

Um aldamótin 1000 tóku Íslendingar kristni. Brátt var stofnuð kirkja með biskupum, prestum, skólum og klaustrum. Landsmenn bjuggu í sveitum og lifðu aðallega á kvikfjárrækt. 

Eftir kristnitöku tileinkuðu Íslendingar sér kristna miðaldamenningu. Þeir stofnuðu tvo biskupsstóla, skiptu landinu í kirkjusóknir og lögleiddu skattgjaldið tíund. Þeir lærðu að skrifa latínuletur á skinn og skráðu lög og sögur á móðurmáli sínu, norrænu.

Goðar hins heiðna samfélags héldu enn veraldlegum völdum. Þeir voru héraðshöfðingjar í stjórnkerfi sem ýmist er kallað goðaveldi eða þjóðveldi. Goðorð tóku að safnast á hendur fárra höfðingjaætta.

Landsmenn bjuggu á dreifðum sveitabæjum og lifðu einkum á að rækta sauðfé og nautgripi. Kornyrkja var lítil en fiskveiðar umtalsverð aukabúgrein. Samgöngur og flutningar fóru fram á hestum og bátum og helsta útflutningsvaran var vaðmál.

Gripir 11. og 12. aldar

Varðveittir safngripir frá fyrstu öldum kristni á Íslandi eru í eðli sínu ekki ólíkir því sem þekkist frá öldunum þar á undan. Jarðfundnir gripir úr ólífrænum efnum finnast við fornleifarannsóknir en nú tekur að örla á því að gripir hafi varðveist án þess að felast í jörðu.

Það merkilegasta verður að telja útskorna húsaviði sem flestir fundust í árefti torf­húsa á 20. öld, t.d. norðlenskar viðar­þiljur. Þannig varð fastheldni í íslenskri húsagerð og timburskortur þess valdandi að við eigum dýrlegan útskurð úr íslenskri kirkju á 12. öld sem ekki á sér annan líka í heiminum.

FlatatungufjalirElstu kirkjugripir á landinu eru tíma­settir til 12. aldar og varðveittust innan vé­banda kirkjunnar allt þar til þeir komu til safnsins fyrir atbeina frumkvöðlanna í söfnun gripa. Hið sama á við og á fyrri öldum að gripir sem vitna um daglegt líf skortir en það sem varðveist hefur manna á meðal vitnar um glæsileik og listfengi forfeðra okkar. Hitt sem hvers­dagslegt getur talist átti ekki sömu löngu lífdagana.

Ufsakristur - lykilgripur tímabilsins 1000-1200

Ufsakristur er róða eða Kristslíkneski af krossi sem hefur glatast. Myndin er skorin úr birki í rómönskum stíl. Hún hefur verið máluð og sjást enn leifar af upphaflegri málningu. Krossinn hékk í Ufsakirkju í Svarfaðardal. Hann er talinn íslenskur og frá því um 1200.

UfsakristurKristur er sýndur alskeggjaður og sítt hárið fellur niður um herðarnar. Hann hefur um sig lendaklæði eins og venja er á slíkum myndum og stendur teinréttur á fótstalli með upprétt höfuð, opin augu og arma teygða beint út frá öxlum, allt einkenni rómanska stílsins.

Rómanskir krossar tíðkuðust fram um 1200. Á þeim er Kristur valdsmannslegur og oft krýndur kórónu konungs. Á gotnesku krossunum sem komu á eftir ber hann þyrni­­­kórónu píslarvottsins, höfuðið hneigist niður og líkaminn hangir í dauðastellingum.

Krossar með Kristslíkneskjum, róðukrossar, voru í flestum kaþólskum kirkjum. Við siðbreytinguna voru margar dýrlingamyndir eyðilagðar en krossar í kirkjum fengu fremur að vera í friði.