1400-1600 Í Danaveldi
Konungur Dana tók við ríki Noregskonungs og varð þannig konungur Íslands. Hann réð því að Íslendingar tóku upp lútherstrú. Á 14. öld blönduðust norska og danska konungsættin og norska krúnan hvarf undir Danakonung.
Englendingar og Þjóðverjar sóttu mjög til Íslands til fiskveiða næstu aldirnar og höfðu stundum meiri völd þar en konungur.
Miklar farsóttir gengu hér tvisvar á 15. öld og fækkaði landsmönnum hugsanlega um helming í hvort skipti.Á fyrri hluta 16. aldar fyrirskipaði Danakonungur lútherstrú um allt ríki sitt. Á Íslandi urðu langvinn átök um siðaskiptin. Þeim lauk árið 1550 þegar síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, var tekinn af lífi. Eftir siðaskiptin jukust völd konungs í landinu.
Gripir 15. og 16. aldar
Vafalítið geymir jörðin enn margvíslegan vitnisburð um lífshætti þjóðarinnar á 15. og 16. öld. Þó hafa hversdagsgripir verið grafnir úr rústum sem fólust undir jarðveg fyrir tilstilli eldvirkni. Þeir veita skýra mynd af lífi fólksins á þessum tíma.
Varðveittir gripir tengjast nafnkunnum mönnum, mönnum sem á þessum tíma máttu sín mikils, lifðu á landsins gagni og nauðsynjum en fóru jafnframt víða um lönd. Gripir kenndir við einstaka afburðamenn setja svip sinn á safnkostinn. Það á t.d. við um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum en áfram gildir það að lítið fer fyrir óskertum minjum alþýðufólks sem byggði landið milli fjalls og fjöru.
Elstu myndir af íslensku fólki, málverk, eru frá 16. öldinni og því verður mannlíf þess tíma okkur á einhvern hátt nánara. Ennþá er fatnaður fáséður en tignarklæði presta og biskupa því sem næst það eina sem til er af slíku.
Guðbrandsbiblía - lykilgripur tímabilsins 1400-1600
Prentlist barst snemma til Íslands. Jón biskup Arason fékk hingað lítið prentverk um 1530 og jafnframt sænskan prentara. Lengi framan af var fyrst og fremst prentað guðsorð og nánast frá upphafi var flest prentað á íslensku, enda varð íslenska kirkjumálið. Guðbrandur biskup Þorláksson lét fyrstur prenta biblíu á Hólum 1584. Hún var síðan endurprentuð í sama prentverki árin 1644 og 1728.
Guðbrandsbiblía, fyrsta prentun Biblíunnar í heild sinni á íslensku. Biblían var prentuð í 500 eintökum og tók prentunin tvö ár. Hverri kirkju var skylt að leggja einn ríkisdal til verksins og kaupa að auki eintak af bókinni. Guðbrandsbiblía var því víða til í kirkjum fram eftir 19. öld og þykir enn eitt fegursta prent á íslensku. Þetta eintak var í eigu Kristínar dóttur Guðbrands biskups. Síðan átti það sonur hennar Þorlákur Arason á Staðarfelli og var eintakið lengi í kirkjunni þar. Band biblíunnar er upprunalegt.