Tímabil

1600-1800 Konungseinveldi

Á öldunum eftir siðaskipti tóku Íslendingar að finna meira fyrir valdi konungs. Frelsi þjóðarinnar minnkaði en konungsvaldið stuðlaði líka að framförum.

Konungur var æðsti yfirmaður lúthersku kirkjunnar. Um 1600 setti hann danska verslunareinokun á Ísland. Árið 1662 viðurkenndu Íslendingar einveldi konungs. Í raun var konungsveldið einkum veldi embættismanna. Innanlands voru flestir embættismenn íslenskir. Íslendingum var því að miklu leyti stjórnað af eigin landsmönnum. Á 18. öld gerðist konungsvaldið áhugasamara um afkomu Íslendinga. Krúnan lagði fé í ullariðnað í Reykjavík og varð hann upphaf að þéttbýli þar. Staðurinn dró síðan til sín æðstu stjórnsýslu innanlands. Nútíminn var að byrja að koma til Íslands. Flest hélst þó í gömlu horfi og mannskæðar farsóttir og hungursneyðir gengu yfir.

Gripir 17. og 18. aldar

Líkneski af PétriÞegar kemur fram yfir siðaskipti kveður við nýjan tón hvað varðveislu gripa varðar og fjölgar þeim til muna. Útskornir gripir og textílar setja mjög svip sinn á safn­kostinn. Það eru kistlar, skápar, trafakefli, lárar og rúmfjalir, svo dæmi séu nefnd. Kvenskart og silfurgripir heldra fólks eru þar á meðal. Sammerkt er þessum gripum að þeir hafa varðveist manna á meðal þar til safnmenn hafa sóst eftir þeim eða eigendum þótt svo mikið til þeirra koma að þeir ættu heima á safni.

Alþýðumenning og listsköpun meðal þjóðar­innar verður sýnilegri og eru ástæður vafalaust nokkrar. Nálægð í tíma skýrir vitaskuld þá mynd sem nauðsynleg er til þess að takast megi að endurskapa aðbúnað fólks, líf og starf hins almenna Íslendings, þótt vitaskuld séu varðveittir gripir fremur úr fórum þeirra sem meira máttu sín. Varðveisla fatnaðar er glöggt dæmi þar um, þar sem við eigum aðeins dæmi um klæðnað heldri kvenna. Hvers­dags­fatnað vantar með öllu og karl­manna­föt eru varla til.

Drykkjarhorn lögréttumanns - lykilgripur tímabilsins 1600-1800

Drykkjarhorn, skorið af Brynjólfi Jónssyni bónda í Skarði í Landsveit. Brynjólfur hefur verið hagur myndskeri og ætla má að hann hafi haft nokkra atvinnu af útskurði þar sem mörg verk eru til eftir hann.

Myndirnar á horninu sýna atburði úr Gamla og Nýja testamentinu. Efst er brúðkaupið í Kana þar sem Kristur breytti vatni í vín. Borð­búnaðurinn er eins og á tímum Brynjólfs. Þá sést Júdít drepa assýríska herforingjann Hólófernis. Neðst leggur Jóab herforingi sverði sínu gegnum Absalon, son Davíðs konungs. Absalon hangir á hárinu í eikartré en múldýrið hans hleypur á brott. Á mjórri enda hornsins,stiklinum, er maður í gini dreka. Áletranir á horninu eiga við myndirnar. Þar er einnig ártalið 1598 og nafn Þorleifs Ásmundssonar sem lét gera hornið. Þorleifur var lögréttumaður á Hvoli í Hvolhrepp og mágur Brynjólfs.

Að jafnaði eru nöfn og verk alþýðunnar á sautjándu og átjándu öld gleymd. Brynjólfur Jónsson telst til fyrstu íslensku myndlistarmanna sem með verkum sínum hafa orðið þjóðkunnir. Í list hans og samtíðarmanna hans togast á íhaldssemi eyjarskeggjans norður í Dumbshafi og áhrif erlendra strauma. Eftir Brynjólf eru þekkt þrjú önnur drykkjarhorn sem öll eru í erlendum söfnum. Þekktustu verk Brynjólfs eru þó hvalbeinsspjöld úr Skarðskirkju. Þannig má segja að Brynjólfur Jónsson hafi sjálfur skorið nafn sitt á spjöld sögunnar.