Fyrirlestur: Kirkjusöngurinn á 18. og 19. öld
Þriðjudaginn 17. september flytur Dr. Bjarki Sveinbjörnsson erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12 og er öllum opinn.
Í ýmsum heimildum er fullyrt að söngur í íslenskum kirkjum fram á síðari hluta 19. aldar hafi allvíða verið úr lagi genginn. Hver hafi sungið sitt lag við sálmana, eða sína útgáfu þeirra laga, ekki verið samtaka né hvorki haft þekkingu né skilning á nótum né takti. Eitt og annað kemur þar til eins og misgóðir forsöngvarar, byggingarlag margra kirkna, sætisskipan kirkjugesta, skortur á söngbókum og þekkingu á nótnalestri, hefðir og margt fleira. Í þessum fyrirlestri reynir Bjarki að draga upp mynd af þessum þáttum, gera grein fyrir ástæðum þeirra, og tilraunum manna til úrbóta.
Bjarki Sveinbjörnsson er tónlistarfræðingur (ph.d.) og fagstjóri Hljóð- og myndsafns Landsbókasafns Ísland-Háskólabókasafns.