Mannát í íslenskum þjóðsögum: Framandgerving, skrímslavæðing og femínismi
Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur flytur erindi byggt á rannsókn sinni á mannáti í íslenskum þjóðsögum. Mannát birtist víða í menningunni, til dæmis í goðsögum, ævintýrum, kvikmyndum, bröndurum, nútíma flökkusögum og svo auðvitað í raunveruleikanum. Í rannsókninni var augum sérstaklega beint að íslensku þjóðsögunum en áhugavert er að velta fyrir sér hvaða upplýsingar sagnir geta veitt um það samfélag sem þær tilheyra og hvaða boðskap þær bera með sér.
Í þjóðsögnum er mannátið yfirleitt notað til aðgreiningar á ólíkum hópum, til að undirstrika illsku eða villimennsku annars hópsins og færa hann fjær mannlegu samfélagi. Þar birtast átök okkar og hinna, kristni og heiðni, siðmenningar og náttúrunnar og karla og kvenna. Í þjóðsögunum éta illar tröllskessur mennska karlmenn, útilegumenn bjóða saklausum bændum upp á mannkjötskássu og víkingar eru étnir hver á fætur öðrum í fjarlægu landi.
Dagrún Ósk setti síðasta sumar upp sýningu byggða á hluta rannsóknarinnar sem ber yfirskriftina: Skessur sem éta karla. Hún er nú í doktorsnámi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og rannsakar birtingarmyndir kvenna í þjóðsögunum.