Samferða í sumar

Safnkostur Þjóðminjasafnsins er gestum til fróðleiks, skemmtunar og örvunar. Heimsókn í safnið er því skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Við bjóðum gestum margs konar leiðir til að upplifa sýningar safnsins og íslenska sögu. Hægt er að ganga um safnið án fylgdar, taka þátt í fjölskylduviðburðum eða fá leiðsögn hjá sérfróðu starfsfólki.

Í sumar bjóðast gestum fjölbreyttar leiðir til að upplifa sýningar safnsins og sögu þjóðarinnar. Börn og fjölskyldur eru sérstaklega boðin velkomin á safnið með fjölbreyttri dagskrá undir handleiðslu safnkennara.

Á miðvikudögum er dagskráliðurinn Veistu hvað? Margt merkilegt og dularfullt bíður þín á Þjóðminjasafninu. Hvað leynist á sýningu safnsins sem fá börn vita af? Skyldi verða sögð saga? Má máta búninga? Má leika sér? Komið í heimsókn og látið koma ykkur skemmtilega á óvart. Hentar vel börnum á aldrinum 5-12 ára.

Á þriðjudögum og fimmtudögum verður boðið uppá leiðsögn á íslensku með tveimur mismunandi þemu. Hægt er að lesa nánar um hverja leiðsögn hér að neðan. 

Á miðvikudögum, laugardögum og sunnudögum verður boðið upp á leiðsögn á ensku um grunnsýningu safnsins. Sjá nánar hér.

Grunnsýning safnsins er skemmtilegt og umfangsmikið ferðalag um sögu íslensku þjóðarinnar, en henni til viðbótar eru aðrar tímabundnar sérsýningar. Það er alltaf eitthvað áhugavert að sjá og læra í safninu fyrir fólk á öllum aldri.

Aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið kostar 2.500 kr. fyrir fullorðna og gildir í eitt ár, en frítt er fyrir börn yngri en 18 ára. Allir hafa því nægan tíma til að njóta þess sem safnið hefur upp á að bjóða og þið eruð velkomin eins oft og þið viljið. Aðgöngumiðinn gildir að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins.

Þjóðminjasafn Íslands hvetur fólk að fara samferða í söfnin í sumar.

Um allt land er að finna forvitnileg hús og fjölbreytileg söfn sem hlotið hafa viðurkenningu safnaráðs fyrir faglega starfsemi. Viltu kíkja í torfbæ? Viltu kanna líf og starf landans gegnum aldirnar? Viltu ganga til bæna í sögulegri kirkju? Eða viltu kynnast öðrum kimum menningararfsins?


Sumardagskrá