Smiðja: Leikur að ljósi

Ljós, gegnsæi, skreytigleði og ljósgjafar

Boðið verður upp á efnivið í tvær smiðjur sem fjölskyldur geta sest við á eigin vegum á meðan á vetrarfríunum stendur. Annars vegar drifsmíði og hins vegar Leikur að ljósi, smiðja með endurunnu efni í anda steinglersglugga.

Á sýningu Þjóðminjasafns Íslands, Þjóð verður til – Menning og samfélag í 1200 ár eru margir hlutir sem tengjast gegnsæi og ljósi. Þetta eru meðal annars gler- og rafperlur frá víkingaöld og eldstál og tinna til að kveikja með eld. Lýsiskolur má þar líka sjá og veiðafæri til að veiða hákarl og hval en orðið lýsi tengist því að olían gaf ljós. Ljósberar eru handluktir úr tré eða málmi sem hafðar voru til þess að bera ljós á milli staða. Á sýningunni er líka skjár, strengdur sköturoði, eins og hafðir voru í bæjarþekjum áður en glergluggar komu til, enda voru glerrúður lengi vel sjaldfengnar og dýrar.

Tenging við ljós og gegnsæi er einmitt sterk við glersteinsglugga Nínu Tryggvadóttur sem líta má á þeirri hlið Þjóðminjasafnsins er snýr að Hringbraut. Gluggarnir eru gerðir á árunum 1960-1962, og eru minningargjöf um Sigurð Guðmundsson arkitekt og konu hans frú Svanhildi Ólafsdóttur en Sigurður teiknaði safnhús Þjóðminjasafnsins ásamt samstarfsmanni sínum Eiríki Einarssyni. Gluggarnir bera titlana:

Kristnitakan
Vakið hugboð um hið andlega líf, trúarlífið

Kvöldvakan
Tilbrigði um baðstofulíf sem tákn um þjóðlífið um aldir

Landnámið
Víkingaskip á siglingu sem minna á landnám á Íslandi 

Nína er ein þekktasta listakona Íslendinga á síðastliðinni öld. Hún málaði málverk, orti ljóð og skrifaði barnabækur sem hún myndskreytti jafnan sjálf, gerði klippimyndir, mósaík, hannaði efni, búninga og vann glerverk allt frá árinu 1953, m.a. fyrir Þjóðminjasafnið, Háskólakapellu og kirkjur í Þýskalandi. Nína bjó og starfaði í nokkrum borgum; í Kaupmannahöfn og New York, París, Lundúnum og Reykjavík. 

Í tengslum við þemað Leikur að ljósi er boðið upp á smiðju úr endurunnu efni, sem minnir á steinglersglugga.