Viðburðir framundan

Brot úr framtíð: Leiðsögn með listamanni

  • 14.6.2024, 12:00 - 12:45, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Á föstudag kl. 12 tekur Þorgerður Ólafsdóttir á móti gestum og segir þeim frá sýningu sinni Brot úr framtíð. Leiðsögnin tekur um 45 mín. 

Sýningin Brot úr framtíð byggir á listrannsókn og myndlistarverkefni Þorgerðar Ólafsdóttur þar sem hún veltir fyrir sér fyrirbærum tengdum mannöld og hugmyndum okkar um menningar- og náttúruarf. 

Á sýningunni verða verk unnin með hliðsjón af munum úr safneign Þjóðminjasafns Íslands sem falla undir flokk núminja sem er hugtak sem Þorgerður notar yfir jarðfundnar minjar samtímans. Þess utan verða þar verk sem tengjast verkefni Þorgerðar í Surtsey sem nýlega kom út í bókinni Esseyja. Einnig verður á sýningunni vísir að framtíðarsafni eða heimildarsafni um fyrirbæri, muni og táknmyndir sem tengjast mannöld. Þetta eru fyrirbæri sem birtast okkur gegnum samruna menningar, náttúru og jarðefnis og ögra viðteknum hugmyndum um hvað sé menning og hvað náttúra, auk þess að gefa okkur innsýn í það hvernig arfleifð okkar í framtíðinni gæti litið út.

Sýningin Brot úr framtíð er unnin í samstarfi við hönnuðinn Garðar Eyjólfsson og rannsóknarverkefnið Relics of Nature sem Þóra Pétursdóttur prófessor í fornleifafræði við Háskólann í Osló leiðir.