Viðburðir framundan
  • BarnaliðsögnSept23

Fara á brott með víkingum!

Fyrsta sunnudag hvers mánaðar í haust.

  • 3.9.2023, 14:00 - 14:45, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu
  • 1.10.2023, 14:00 - 14:45, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Barnadagskrá með safnkennurum er fyrsta sunnudag hvers mánaðar kl. 14:00. Í haust beinum við sjónum okkar að landnámsöld og víkingum. Víkingafélagið Rimmugýgur heimsækir safnið í haust til að sýna og kenna handverk landnámsaldar og heimsóknirnar ber upp á sömu daga, svo það er um að gera að sjá tvær flugur í einu höggi þann 1. október og 5. nóvember. 

Endilega komið aftur og aftur, því alltaf er eitthvað nýtt að sjá í hverri heimsókn.

Í Þjóðminjasafni Íslands er margt skrýtið og skemmtilegt að skoða, meðal annars hauskúpur sem valda heilabrotum, vegleg vopn og dularfullar dýraleifar. Einnig gefst tækifæri til að máta nokkra búninga úr fórum safnfræðslunnar sem líkjast fötum landnámsfólksins.

Áhugasamir krakkar og fjölskyldur þeirra eru velkomin að velta fyrir sér ýmsum spurningum um lífið fyrr á öldum með safnkennara. Við hlökkum til að sjá ykkur.

Börn fá frítt inn í Þjóðminjasafnið. Kaffihúsið er opið og í Safnbúð er hægt að skoða skemmtilegt dót sem tengist landnámsöld Íslands.

Hér má lesa nánar um handverkshersa Rimmugýgjar

Hér geta þau sem hafa áhuga og hugrekki skoðað hauskúpu vel og vandlega í þrívídd! Snúið hauskúpunni með fingrinum - eða músarbendli ef þið eruð í tölvu - og hægt er að stækka og minnka með því að skruna inn og út með fingrum eða mús. 

 

Verið öll velkomin!