Viðburðir framundan
  • Safnanótt á Þjóðminjasafninu

Safnanótt: Kvöld í baðstofunni og fleiri viðburðir

  • 3.2.2023, 18:30 - 22:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Á Safnanótt býðst gestum Þjóðminjasafnsins að hverfa aftur til 19. aldar, setjast á bekk með kamba eða snældu í hönd og upplifa kvöldvöku í baðstofunni. Kvæðamannafélagið Iðunn sér um dagskrána.

Kvöld í baðstofunni

Kvöld í baðstofunni

Kvæðamenn, - konur og börn flytja ýmiss konar kveðskap, rímur og vísur, sagnaþulur segir ævintýri, hægt verður að hlýða á bragfræðikennslu í léttum dúr, langspilsleik og söng. Einnig verður haldið lítið hagyrðingamót þar sem þrír hagyrðingar flytja frumsamdar vísur og stiginn verður sagnadans (vikivaki/hringdans). Dagskrána má lesa hér að neðan.  

Man ég bjarta bæinn minn frá bernskudögum,
þar sem rjáfrið söng af sögum,
sónargaldri, rímnalögum.

Pabbi sjálfur sat þar oft við sagnalestur.
Þróttur kvæða þótti mestur
þegar skemmti næturgestur.
Höf: Steinn Sigurðsson

 

Kvæðamannafélagið Iðunn heldur opinn fund í fyrirlestrarsal safnsins

Fundurinn verður haldinn kl. 20:00-21:00Á dagskrá fundarins er m.a. erindi sem fjallar um mormóna í Ameríku sem orti rímur. Það er Katelin M. Parsons sem flytur og nefnir hún erindið Svaðilför á sléttunum: Örlagasaga rímnaskálds. Einnig verður samkveðskapur sem Kvæðakórinn leiðir og „afli Skáldu“ lesinn. Skálda er lítill viðarbátur og er safnað í hann vísum sem ortar eru á hverjum fundi félagsins. 

Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað 15. september árið 1929. Tilgangur félagsins er að æfa kveðskap og safna rímnalögum (íslenskum stemmum) og alþýðuvísum, fornum og nýjum. Jafnframt sinnir félagið fræðslu- og kynningarstarfi um þjóðlög og alþýðutónlist.

Ljósið kemur langt og mjótt

Kerti

 

Meðan á vetrarhátíð stendur verða týrur í ljósastæðum á sýningu Þjóðminjasafnins til að minnast aðferða forfeðra okkar og -mæðra við að rata í niðdimmum göngum torfbæjanna. Í hýbýlum á Íslandi fyrrum hefur sjaldnast verið bjart, en hins vegar er sagt að nútímafólk þekki ekki myrkrið. Byggingarefnið, torf og grjót í útveggjum og þekju, var ekki til þess fallið að koma þar fyrir gluggum, enda var reynt að byrgja kuldann úti eins og unnt var með því að hafa ljósop ekki stærri en nauðsyn krafði. Þegar til raflýsinga kom sáu sumir eftir rökkrinu.

 

 

 

 

Öll velkomin, frítt inn á Safnanótt

Kaffihús Þjóðminjasafnsins verður með tilboð á safnanótt og öll fjölskyldan getur átt notalega stund á Þjóðminjasafninu.
Við hlökkum til að sjá ykkur. 

Hér má skoða dagskrána:

kl. 18:30 Linus Orri Gunnarsson Ceberborg kvæðamaður

kl. 18:40 Linus Orri og Chris Foster syngja tvísöngva

kl. 18:50 Chris Foster leikur á langspil

kl. 18:55 Rósa Þorsteinsdóttir segir ævintýri

kl. 19:10 Bára Grímsdóttir kveður

kl. 19:20 Bára Gríms syngur og Chris Foster leikur á langspil

kl. 19:25 Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Sigurlína Davíðsdóttir – Bragfræði í léttum dúr

kl. 19:40 Magnea Einarsdóttir kvæðakona

kl. 19:50 Kvæðakórinn

kl. 20:00-21:00 Opinn fundur kvæðamannafélagsins Iðunnar í fyrirlestrarsal safnsins

kl. 20:00 Atli Freyr Hjaltason leiðir sagnadans

kl. 20:15 Iðunn Helga, Gréta Petrína og Jóhannes Jökull kveða Stúllurímur

kl. 20:35 Rósa Jóhannesdóttir og Helgi Zímsen, kveða og fara með ýmsar vísur

kl. 21:00 Sigurlín Hermannsdóttir flytur frumsamið efni

kl. 21:10 Ingimar Halldórsson kvæðamaður

kl. 21:25 Litla hagyrðingamótið – 3 hagyrðingar flytja frumsamdar vísur

kl. 21:35 Bára Grímsdóttir kvæðakona

kl. 21:45 Atli Freyr leiðir sagnadans