Viðburðir framundan

Leiðsögn: Skúli Skúlason prófessor við Náttúruminjasafn Íslands

  • 14.2.2021, 14:00 - 14:45, Safnahúsið við Hverfisgötu

Sunnudaginn 14. febrúar kl. 14 mun Skúli Skúlason prófessor við Náttúruminjasafn Íslands og Háskólann á Hólum ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögn Skúla mun beinast að sérstöðu íslenskrar náttúru, með hvaða hætti hún birtist í myndheimi, og á hvern hátt viðhorf okkar til náttúrunnar og umgengni mótast af sýn okkar og hugmyndaheimi.

Sjónarhorn er áhrifamikil sýning um sjónrænan menningararf þjóðarinnar. Í sjö álmum eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin er samstarfsverkefni Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra. 

Auk Sjónarhorna eru tvær sérsýningar í húsinu, Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen á vegum Listasafns Íslands og Óravíddir, orðaforðinn í nýju ljósi á vegum Stofnunar Árna Magnússonar.

Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnareglur sem eru í gildi. Grímuskylda og 2 metra reglan gildir á safninu. Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði í Safnahúsinu við Hverfisgötu og Þjóðminjasafni Íslands.

Verið öll velkomin.