Viðburðir framundan

Leppatuska og Askasleikir skemmta kátum krökkum á sunnudag!

  • 17.12.2023, 11:00 - 11:30, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Askasleikir dæmalausi kemur eins og venjulega 17. desember í Þjóðminjasafnið og í þetta sinn kemur jólaskellan Leppatuska - sem er systir hans - með honum. Skemmtunin byrjar klukkan 11. 

Askasleikir kemur með sinn ljóta haus og Leppatuska með sápu og klút! Þau hlakka til að hitta skemmtilega krakka og foreldra þeirra, syngja, skemmta og komast í sprellfjörugt jólaskap. 

Jólasveinar koma eins og venjulega alla daga kl. 11 fram að jólum. 

Leppatuska 

Leppatuska er löngum
á lofti með sápu og klút
því gamli Leppalúði
látlaust sóðar út.

Hún hundleið er á þrifum
en hætt ei getur samt
því hellirinn er hörmung
og henni er þetta tamt.

Askasleikir

Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus.
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Jólaskellan Taska kemur með Ketkróki á Þorláksmessu. 

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og ókeypis fyrir börn að 18 ára aldri. Árskort kostar 2.500 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði í Þjóðminjasafni Íslands.