Viðburðir framundan

Listamannaspjall með Spessa og Jóni Proppé

  • 4.9.2021, 14:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Yfirlitssýning á verkum samtímaljósmyndarans Spessa hefur verið framlengd til 12. september. Laugardaginn 4. september kl. 14 taka vinirnir Spessi og Jón Proppé listheimspekingur á móti gestum í Myndasal Þjóðminjasafnsins, ganga um sýninguna og spjalla um verkin og feril Spessa. Af þessu tilefni býður Þjóðminjasafnið gestum viðburðarins upp á léttar veitingar um leið og Spessa er þakkað gjöfult samstarf.

Í tengslum við sýninguna gefur Þjóðminjasafnið út yfirgripsmikla ljósmyndabók þar sem birtist hluti af þekktum verkum og óbirtar eða sjaldséðari ljósmyndir Spessa. Jón Proppé skrifar í bókina og fer í texta sínum yfir feril og höfundareinkenni Spessa. Spessi áritar bókina að spjalli loknu.

Úr texta Jóns Proppé í bókinni: „…afköst [Spessa] hafa verið með eindæmum og hann hefur fyrir löngu sýnt sig vera einn af helstu listamönnum sinnar kynslóðar. Verkin eru af ýmsum toga en þó má rekja skýra þræði gegnum ferilinn, hugmyndir sem hann þróar, viðfangsefnin sem hann brennur fyrir og nálgunin sem getur verið persónleg en líka pólitísk – alltaf umbúðalaus og án málamiðlana.“

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði í Þjóðminjasafni Íslands.

Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi. Grímuskylda er á safninu. Grímuskylda á ekki við um börn sem fædd eru 2006 og síðar.  Fjöldatakmörkun og nálægðarmörk taka ekki til barna sem fædd eru 2016 eða síðar. 

Verið öll velkomin.