Viðburðir framundan

Fyrirlestur: Sjónrænn arfur Halldórs Péturssonar

  • 6.10.2020, 12:00 - 13:00, Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Unnar Örn Auðarson, sýningarstjóri og listamaður flytur fyrirlesturinn Sjónrænn arfur Halldórs Péturssonar í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns þriðjudaginn 6. október kl. 12. Þar dregur Unnar Örn upp mynd af starfi teiknarans Halldórs Péturssonar (1916 -1977) frá miðri 20. öld og skoðar helstu áhrifavalda í verkum hans.

Skoðað verður innihald og upplag nokkurra lykilverka á ferli Halldórs þar sem koma fyrir merki þekktra fyrirtækja, kápur vinsælla bóka og tímarita sem og portrettmyndir af þjóðþekktum einstaklingum.

Að fyrirlestri loknum fer Unnar stutta leiðsögn um sýninguna Teiknað fyrir þjóðina – Myndheimur Halldórs Péturssonar í Myndasal. Sú sýning gefur einstaka yfirsýn yfir verk Halldórs þar sem eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk hans frá barnæsku til æviloka.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Til þess að hægt sé að halda nándarmörkum verður takmarkað sætaframboð í salnum. Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnareglur sem eru í gildi. Fyrirlesturinn er tekinn upp og verður birtur á Youtube rás Þjóðminjasafns Íslands.

Teiknað fyrir þjóðina. Myndheimur Halldórs Péturssonar

Fáir hafa teiknað sig eins djúpt inni í hjarta þjóðarinnar og listamaðurinn Halldór Pétursson (1916-1977). Á blómatíma hans sem teygði sig yfir marga áratugi voru verk hans alltumlykjandi í íslensku samfélagi. Hann myndskreytti fjöldann allan af bókum, teiknaði forsíður vinsælla tímarita, vann frímerki og peningaseðla og teiknaði andlitsmyndir.

Borgin og sveitin, dýrin og mannfólkið teiknaði Halldór af mikill ástríðu og innsæi. Hann skóp myndheim sem talaði beint inni í hjarta þjóðarinnar. Heim sem var fullur af sterkum og litríkum persónum og oftar en ekki litaður gamansemi og endurliti til fortíðar. Samtímamenn hans þekktu best hestamyndir hans sem og skopteikningar í tímaritinu Speglinum. Langlífasta verk hans er sennilega teikningar við kvæði Vísnabókarinnar sem kom fyrst út árið 1946 og er ennþá fáanleg. Halldór lærði í Danmörku og Bandaríkjunum og var einn af stofnendum Félags íslenskra teiknara.

Á þessari yfirlitssýningu á verkum Halldórs má glöggt sjá fjölhæfni hans sem teiknara en þar eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk hans frá barnæsku til æviloka. Árið 2017 færðu börn Halldórs Þjóðminjasafni til varðveislu heildarsafn teikninga föður síns. Stór hluti verkanna á sýningunni koma úr þeirri safneign en eins eru sýnd verk fengin að láni frá fjölmörgum stofnunum hér á landi. Sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson.