Viðburðir framundan

Sýningaopnun: Í ljósmálinu og Horft til norðurs

  • 18.1.2020, 14:00 - 16:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Laugardaginn 18. janúar verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Þjóðminjasafni Íslands. Í ljósmálinu, ljósmyndir eftir Gunnar Pétursson og Horft til norðurs, ljósmyndir Jessicu Auer. Sýningarnar eru framlag safnsins á Ljósmyndahátíð Íslands 2020. Verið öll velkomin. Nánar um sýningarnar hér.

Í Ljósmálinu

Reykvíkingurinn og áhugaljósmyndarinn Gunnar Pétursson átti langan og einstakan feril. Hvort sem hann myndaði náttúru, borg eða mannlíf þá einkenndust öll verk hans af óhlutstæðri sýn hans á umhverfið. Hann sá fleti, form og áferð og lagði alúð í að fanga ljós og hreyfingu í myndum sínum. Hann var virkur í bylgju áhugaljósmyndara eftirstríðsáranna í íslensku samfélagi þegar ný sýn og nýir straumar hösluðu sér völl og listræn ljósmyndun komst á dagskrá.

Gunnar var náttúruunnandi sem gekk snemma í Ferðafélag Íslands og ferðaðist með myndavélina um hálendið og ósnortna náttúru landsins. Hans helsti ferðafélagi var ljósmyndarinn Ingibjörg Ólafsdóttir.

Miðað við umfang ljósmyndasafns Gunnars er nokkuð einstakt hve lítið hefur birst af myndum hans. Hann myndaði fyrst og fremst fyrir sjálfan sig en sló í engu af kröfum til sinna verka. Það er þess vegna mikilsvert og brýnt að færa myndheim þessa hæverska ljósmyndara fram í dagsljósið.

Sýningin í Myndasal Þjóðminjasafnsins byggir á rannsókn Steinars Arnar Erlusonar en í tengslum við sýninguna verður gefin út bók hans um Gunnar Pétursson og ljósmyndun hans. Steinar Örn gegndi rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn árið 2018-2019.

Horft til norðurs

Ljósmyndararinn Jessica Auer fer í einskonar könnunarleiðangur um ferðamannastaði Íslands og skrásetur umhverfi ferðamannsins. Í myndum hennar verða ferðalangurinn og efnisheimur hans hluti af náttúrusvæðum og áningarstöðum.

Ferðamennska birtist sem umbreytingarafl í íslensku landslagi og hefur sterk sjónræn áhrif. Sjálf stendur Jessica utan við viðfangsefnið og horfir úr fjarlægð líkt og gestur í ókunnugum heimi. Breytt landslag af manna völdum hefur verið viðfangsefni samtímaljósmyndara um nokkurt skeið og ferðamannaiðnaðurinn er stór þáttur í því mengi. Jessica er kanadísk og kennir ljósmyndun við Concordia University í Montréal. Hálft árið býr hún á Seyðisfirði og rekur þar stúdíóið Strönd.

Listamaður vill þakka Conseil des arts et des lettres du Québec, the Canada Council for the Arts og the Post-Image Cluster við Milieux Institute for Arts and Culture fyrir veitta styrki.