Sýningaropnun: Á elleftu stundu
Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar á sýningunni Á elleftu stundu laugardaginn 17. september kl. 14. Adam Grønholm, staðgengill sendiherra hjá danska sendiráðinu opnar sýninguna. Klukkan 13 verður sýningaspjall með þeim Kirsten Simonsen sýningarhöfundi og arkitektunum Poul Nedergaard Jensen og Jens Frederiksen en sá dagskrárliður mun fara fram á dönsku. Verið öll velkomin.
Árið 1973 hóf danski arkitektinn Poul Nedergaard Jensen, kennari við Arkitektaskólann í Árósum, samstarf við Konunglegu dönsku listaakademíuna í Kaupmannahöfn og Þjóðminjasafn Íslands um skrásetningu á íslenskum torfbæjum áður en það yrði of seint. Þessi byggingartegund sem þróast hafði með þjóðinni í meira en þúsund ár var að miklu leyti horfin og þeir torfbæir sem eftir voru stóðu frammi fyrir eyðileggingu.
Næstu árin fóru skólarnir í nokkrar námsferðir til Íslands þar sem íslenskir torfbæir voru mældir upp og teiknaðir. Skráningin var gerð með það fyrir augum að vekja athygli á mikilvægi og sérstöðu þessarar íslensku byggingartækni og leggja grunn að varðveislu og endurreisn hennar.
Sýningin Á elleftu stundu veitir innsýn í hið umfangsmikla og ómetanlega heimildarefni sem safnaðist saman í þessum ferðum. Árið 2017 ánafnaði Poul Nedergaard Jensen Þjóðminjasafni Íslands yfirgripsmikið safn sitt af teikningum og ljósmyndum, sem í liggur ómetanleg skráning á íslenskri byggingarlist sem er að einhverju leyti horfin, þó að mörgu hafi tekist að bjarga.
Sýningin er jafnframt afrakstur rannsókna Kirsten Simonsen á þessum gögnum en hún hefur gegnt rannsóknarstöðu tengdu nafni Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn Íslands undanfarin tvö ár.
Í tengslum við sýninguna mun Þjóðminjasafnið gefa út ritið, I den 11. time eftir Kirsten sem fjallar ítarlega um þessar ferðir, afrakstur þeirra og áhrif á húsafriðun og minjavernd á Íslandi.