Viðburðir framundan

Sýningaropnun: Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit

  • 22.2.2020, 16:00 - 17:00, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Þjóðminjasafn Íslands býður þér að vera við opnun sýningarinnar
Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit. Sýningin er unnin í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands.

Sýningin Saga úr jörðu. Hofstaðir í Mývatnssveit verður opnuð laugardaginn 22. febrúar kl. 16:00.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir opnar sýninguna.

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, býður gesti velkomna. Hrönn Konráðsdóttir verkefnastjóri sýningarinnar og dr. Hildur Gestsdóttir, fornmeinafræðingur á Fornleifastofnun Íslands greina stuttlega frá verkefninu og tilurð sýningarinnar. Dr. Guðmundur Hálfdánarson prófessor við Háskóla Íslands flytur stutt ávarp fyrir hönd samstarfsnefndar Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands.

Á Hofstöðum í Mývatnssveit er merkileg minjaheild sem spannar allt frá víkingaöld fram til okkar daga. Þar hafa farið fram fornleifarannsóknir, þær fyrstu í byrjun 20. aldar en viðamestar hafa þær verið seinustu þrjá áratugi. Grafinn var upp gríðarstór veisluskáli frá víkingaöld sem er eitt stærsta mannvirki sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Þá var grafinn upp kirkjugarður á Hofstöðum sem í hvíldu einstaklingar sem tengdir voru fjölskylduböndum. Beinin veita áhugaverðar upplýsingar um líf og aðstæður fólksins.

Mörg hundruð manns hafa komið að rannsóknum á Hofstöðum og víðar í Mývatnssveit. Afraksturinn má sjá í ritinu Hofstaðir, fjölmörgum fræðigreinum, skýrslum og nemendaritgerðum. Markmið sýningarinnar er að kynna það margþætta ferli sem fornleifarannsókn er. Á löngum rannsóknartíma fleygði tækninni fram á öllum sérsviðum fornleifafræði, ekki hvað síst síðustu 30 ár. Í langtímarannsókn eins og þeirri á Hofstöðum fæst skýr mynd af því hvernig hugmyndir, vitneskja og túlkun á fortíðinni breytist. Á sýningunni er leitast við að svara spurningum er varða landið og nýtingu þess, miðstöðina Hofstaði, daglegt líf, mataræði, fjölskylduna, miðaldir til 20. aldar og rannsóknasögu Hofstaða.

Sýningarhöfundar: Guðrún Alda Gísladóttir og Hildur Gestsdóttir

Verkefnisstjórn: Eva Kristín Dal og Hrönn Konráðsdóttir

Sýningarhönnun: Snorri Freyr Hilmarsson

Grafísk hönnun: Albert Ulysses Munoz, Ulysses/AtonJL