Viðburðir framundan

Má bjóða þér til Stofu?

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní

  • 17.6.2019, 14:00 - 16:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar Stofu; nýs fjölbreytts fjölskyldu- og fræðslurýmis fyrir alla gesti. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opnar Stofuna á Þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 14. Um er að ræða opnun fyrsta áfanga en Stofa á eftir þróast áfram og fyllast af spennandi viðfangsefnum.

Stofa er fyrir fjölskyldur, skólahópa og alla forvitna gesti. Hún breytist eftir þörfum úr setustofu í rannsóknarstofu eða kennslustofu. 

Í skápum og skúffum Stofunnar eru gripaheildir úr geymslum safnsins. Gripirnir vekja margar spurningar. Til hvers voru þeir notaðir? Hvað tengir þá eða aðgreinir? Er vitað hver átti þá? Hægt er að komast að því sem vitað er um gripina með hjálp snjallsíma.

Innst í rýminu er Bæjarhóll. Þar má láta vel um sig fara, finna lesefni við hæfi, leika sér og spila. Hóllinn breytist eftir þörfum í knörr landnámsfólksins, baðstofu torfbæjarins eða útsýnispall yfir fortíð og framtíð. 

Á Þjóðhátíðardaginn verða settar upp í Stofu þrjár rannsóknarstöðvar sem gefa börnum tækifæri til að setja sig í spor fornleifafræðinga. Viltu prófa að hæðarmæla, lesa í fræ eða spá í steina? Komdu í Þjóðminjasafnið milli kl. 14 og 16 á 17. júní og vertu með í að rannsaka!

Allan daginn er hægt að fara í ratleik sem fjallar um fugla. Verkefnið er að finna fugla á sýningunni Þjóð verður til í Þjóðminjasafninu, skoða fuglana við Tjörnina, og fara í Safnahúsið við Hverfisgötu og skoða fuglana á sýningunni Sjónarhorn, sem þar er.

Ókeypis aðgangur fyrir alla gesti á 17. júní í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu og Safnahúsið við Hverfisgötu.

Verið öll velkomin!