Viðburðir framundan

Þjóð í mynd: Myndefni frá stofnun lýðveldis 1944

  • 17.6.2024 - 5.1.2025, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Kvikmyndasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands munu standa saman að sýningu um stofnun lýðveldis á Íslandi hinn 17. júní 1944.

Kvikmyndasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands munu standa saman að sýningu um stofnun lýðveldis á Íslandi hinn 17. júní 1944. Á sýningunni verður hægt að skoða lýðveldishátíðina eins og hún var fest á filmur sem finna má í geymslum safnanna. Um er að ræða ljós- og kvikmyndir sem margar hverjar hafa ekki áður birst opinberlega og varpa nýju ljósi á þennan sögulega dag á Þingvöllum, sem og hinn 18. júní í Reykjavík og viðburði þar. Munir í vörslu Þjóðminjasafnsins verða einnig til sýnis ásamt myndefninu og setja svip sinn á sýninguna. Enn fremur verða sýndar nýfundnar myndir af þjóðaratkvæðagreiðslunni um afnám sambandslaganna í maí 1944.

Skipulag hátíðarhaldanna var í höndum Þjóðhátíðarnefndar og verður það að nokkru leyti tekið til skoðunar á sýningunni. Fyrst ber að nefna boð og bönn nefndarinnar varðandi störf myndatökufólks við gerð opinberra mynda af hátíðinni en þau ollu því að minna er til af myndefni en ella hefði orðið til. Einnig verða hlutverk kvenna skoðuð, en fjallkonunni var meinað að koma fram á Þingvöllum vegna veðurs og stærsta framlag kvenna á hátíðinni var því ljóð Huldu, „Hver á sér fegra föðurland“, sem karlkyns leikari las upp vegna veikinda skáldkonunnar. Þetta olli mörgum vonbrigðum. Að lokum verður svo fjallað um veðrið sem óneitanlega hafði mikil áhrif á hina fjölmörgu gesti á Þingvöllum.