Tónleikar og leiðsögn til heiðurs Jóni Múla
Óskar, Eyþór og Spessi í Myndasal
Sunnudaginn 27. júní milli klukkan 14 og 15 verða tónleikar og stutt leiðsögn í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands í tengslum við yfirlitssýninguna Spessi 1990 – 2020. Á sýningunni er meðal annars ljósmynd Spessa af Jóni Múla. Myndin tengist samstarfi Spessa og Óskars Guðjóns saxófónleikara sem hófst 2002 þegar Óskar bað Spessa að vinna með sér að því að myndskreyta hljómdisk með lögum Jóns Múla í framsæknum jassútsetningum, sem Óskar var að gera með jasshljómsveitinni Delerað. Ákveðið var að Jón Múli myndi prýða framhlið disksins. Spessi mun segja söguna á bak við myndina og síðan munu Óskar Guðjóns og Eyþór Gunnarsson leika lög Jóns Múla. Þess má geta að Jón Múli hefði orðið 100 ára í ár.
Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði í Þjóðminjasafni Íslands.
Í tengslum við sýningu Spessa í Myndasal gefur Þjóðminjasafnið út yfirgripsmikla ljósmyndabók sem varpar ljósi á feril Spessa. Þar birtist hluti af þekktum verkum og innan um eru óbirtar eða sjaldséðari ljósmyndir hans. Spessi áritar bókina við sama tækifæri en hún er nú á sérstöku tilboðsverði í safnbúð.
Samtímaljósmyndarinn Spessi - Sigurþór Hallbjörnsson - hefur skapað sér einstakan stíl á sviði fagurfræðilegrar ljósmyndunar. Í verkum hans birtist iðulega blákaldur veruleikinn, ekkert fegrað og ekkert dregið undan sama hvort myndefnið er manneskjan eða umhverfið. Kimar samfélagsins í samtvinningi við menningarlífið eru áberandi í verkum hans. Val hans og efnistök eru gjarnan ögrandi en samtímis gædd mannúð og kímni.
Óskar Guðjónsson tenórsaxófónleikari nam við Tónlistarskóla FÍH og hefur leikið og hljóðritað með fjölda hljómsveita hérlendis og erlendis, þar á meðal Mezzoforte. Óskar hefur gefið út 19 hljómplötur með eigin tónlist eða útsetningum, undir eigin nafni eða sem hluti af hljómsveit. Óskar hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin 10 sinnum og nú síðast fyrir lagið Magnús Trygvason Eliassen af plötunni ADHD 6.
Eyþór Gunnarsson hóf ungur að læra á píanó. Hann var einn stofnenda hljómsveitarinnar Mezzoforte og hefur í gegnum tíðina leikið með flestum fremstu djassleikurum landsins. Einnig hefur hann spilað með erlendum djassleikurum sem hafa sótt Ísland heim. Eyþór hefur ennfremur starfað sem upptökustjóri og útsetjari fyrir fjölda tónlistarmanna á Íslandi og erlendis. Hann hefur oftsinnis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem djassleikari og hljómborðsleikari ársins.
Sýningin stendur yfir í Myndasal Þjóðminjasafnsins til 29. ágúst nk.
Við hvetjum gesti til að fylgja sóttvarnarreglum. Grímuskylda er þar sem er ekki unnt að tryggja 1 meters nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Verið öll velkomin.