Viðburðir framundan
  • Mynd: Akiko Hada

Völuspá. Jón Gnarr og þeyr 2

  • 27.8.2021, 16:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu
  • 28.8.2021, 16:00, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Jón Gnarr syngur Völuspá við eigið lag. Verkið er jafnframt útskriftarverkefni Jóns en hann hefur nýtt heimsfaraldur til að stunda Mastersnám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands.

Völuspá. Jón Gnarr og Þeyr2

Völuspá er eitt Eddukvæða og langþekktast Íslenskra fornkvæða. Kvæðið segir frá sköpun heimsins, tilkomu manneskjunnar og atburðum og átökum þeim sem að lokum leiða til Ragnaraka. Kvæðið er varðveitt í tveimur megingerðum og styðst Jón við hina svokölluðu Konungsbókarútgáfu en hún er og elsta varðveitta útgáfa kvæðisins, eða frá árinu 1270.

Sýningin er afrakstur samstarfs Jóns við Hilmar Örn Agnarsson og Hilmar Örn Hilmarsson en þeir sjá um músíkalska útsetningu og hljóðmynd verksins. Við flutninginn er notast við ýmis hljóðfæri; Hilmar Örn Hilmarsson leikur á syntesiser en Hilmar Örn Agnarsson á ýmis hljóðfæri úr smiðju Páls á Húsafelli, steinhörpu og flautur.

Urður, Verðandi og Skuld sjá einnig um söng, bakraddir og hljóðfæraslátt. Þær skipa þær Berglind Björgúlfsdóttir, Hjördís Árnadóttir og Rannveig Þyri Guðmundsdóttir.

Við meðferð og túlkun texta hefur Jón notið leiðsagnar Gísla Sigurðssonar prófessors við Árnastofnun.

Kvæðið samanstendur af 63 erindum og tekur flutningur um klukkustund.

Merki verksins er húðflúr sem Jón ber. Það er endurgerð af hluta af rúnasteini á Gotlandi; nafnið Ísland rist með rúnum og er steinninn langelsta varðveitta heimild þar sem nafnið Ísland kemur fyrir. Hrafnhildur Guðjónsdóttir, eða Habba Nero einsog hún kallar sig, risti rúnirnar á handlegg Jóns með handafli samkvæmt aldagömlu handbragði frá fornöld.

Athugið sýningin er ekki ætluð börnum yngri en 10 ára.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði í Þjóðminjasafni Íslands.

Grímuskylda er á safninu. Grímuskylda á ekki við um börn sem fædd eru 2006 og síðar. Hámarksfjöldi fólks í sama rými er 200. Fjöldatakmörkun og nálægðarmörk taka ekki til barna sem fædd eru 2016 eða síðar. 

Verið öll velkomin.

Ljósmynd: Akiko Hada