Fréttir

Alþjóðlegi safnadagurinn á Þjóðminjasafni Íslands

18.5.2020

Söfn um allan heim fagna Alþjóðlega safnadeginum í dag þann 18. maí. Markmið alþjóðlega safnadagsins er að kynna og efla safnastarf í heiminum. Á hverju ári velur ICOM þema fyrir daginn og í ár er yfirskrift dagsins „Söfn eru jöfn. Fjölbreytni og þátttaka allra 2020“.

Höfuðatriði samfélagslegs gildis safna er möguleikinn á því að bjóða fólki af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn að upplifa einstaka hluti. Söfn eru í senn virtar stofnanir og breytingaafl og þurfa að taka þátt í nútímasamfélaginu með uppbyggilegum hætti.

Þær áskoranir sem þátttaka fjölbreytts hóps hefur í för með sér og þeir erfiðleikar sem fylgja því að fjalla um flókin samfélagsleg málefni eru ekki bundin við söfn og menningarstofnanir en skipta þessar stofnanir þó miklu máli þar sem þær eru í hávegum hafðar í samfélaginu. Væntingar um samfélagslegar breytingar til hins betra drífa umræðuna um möguleika safna á að vera jákvætt samfélagsafl áfram. Sýningar, ráðstefnur, gjörningar, fræðsludagskrár og önnur verkefni safna þurfa að vera unnin með þetta markmið að leiðarljósi.

Hér á Þjóðminjasafni Íslands er unnið hörðum höndum að því að taka á móti öllum samfélagshópum. Það var boðið upp á Döff fjölskylduleiðsögn á haustmánuðum og snemma árs 2020 var boðið upp á fjölskylduleiðsögn fyrir blinda og sjónskerta. Báðir viðburðir voru vel sóttir.

Saga hinsegin fólks er ekki oft sögð á opinberum söfnum og sýningum. Regnbogaþráðurinn er hinsegin vegvísir í gegnum sýninguna Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár og er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Samtakanna ´78. Mikilvægt er að segja sögu minnihluta hópa á söfnum og skoða hefðbundna Íslandssögu út frá gagnrýnum sjónarhóli og spyrja spurninga um hverra saga sé sögð.

Undir yfirskriftinni „Söfn eru jöfn. Fjölbreytni og þátttaka allra“, leitast Alþjóðlegi safnadagurinn 2020 við að verða sameinandi afl sem í senn fagnar þeim ólíku sjónarmiðum sem finna má í samfélögum og starfsliði safna og leitast við að koma auga á og sigrast á hvers konar slagsíðu í því sem sýnt er og þeim sögum sem eru sagðar.

Þjóðminjasafn Íslands tekur þátt í Alþjóðlegum safnadegi 2020 og hvetjum við gesti okkar að fylgja okkur á samfélagsmiðlum og kynna sér innslög okkar þar. Sjá slóð á instagram- og facebooksíður safnsins hér fyrir neðan í fæti síðunnar.

#safnadagurinn #söfnfyrirjafnrétti #MuseumDay #IMD2020 #Museums4Equality