Fréttir

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur – Íslensk menningarverðmæti í hættu

15.10.2020

Þjóðminjasafn Íslands vill koma á framfæri sérstökum þökkum til þáttagerðarmanna fréttaskýringaþáttarins Kveiks fyrir umfjöllun um varðveislu á menningararfi þjóðarinnar. Í þættinum, sem var á dagskrá RÚV 8. október síðastliðinn, var varpað ljósi á alvarlegar brotalamir á þessu sviði.

Þjóðminjasafnið hefur um áratuga skeið lagt ríka áherslu á bætta varðveislu minja í vörslu þess og hefur á síðustu árum náð mikilvægum áföngum í þeim efnum.

Á þessu ári fékk Þjóðminjasafnið hin íslensku safnaverðlaun fyrir árangur og ný viðmið á sviði varðveislu með tilkomu Varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar safnsins að Tjarnarvöllum 11 í Hafnarfirði, en þar eru þjóðminjar varðveittar við kjöraðstæður. Varðveislu- og rannsóknamiðstöðin var formlega vígð 5. desember 2019. Lengi hafði verið vakin athygli stjórnvalda á nauðsynlegum úrbótum í varðveislumálum en nánustu forsögu þessara umbóta, sem hér eru ræddar, má rekja til ársins 2013. Árið 2016 fékk safnið stóran hluta húsnæðisins í Hafnarfirði afhentan og hófst þá undirbúningsvinna og flutningar á safngripum.

Þjóðminjasafnið er, sem kunnugt er, höfuðsafn landsins á sviði menningarminja. Safnið á að vera í fararbroddi í faglegu starfi á öllum sviðum og þar er varðveisla minja grundvöllur annarrar starfsemi.

Í varðveislumiðstöðinni í Hafnarfirði eru minjar geymdar við kjöraðstæður í sérhönnuðu öryggishúsi. Þar er sérhæfð aðstaða til varðveislu á fjölbreyttum safnkosti og að auki margháttuð starfsemi á sviði þjóðminjavörslu. (Nánari upplýsingar hér.)

Allt frá því um síðustu aldamót hafa verið gerðar verulegar úrbætur í varðveislumálum á öðrum safnkosti. Umfangsmikill safnkostur Ljósmyndasafns Íslands er varðveittur í Kópavogi við kjöraðstæður. Þá hefur bátum og ýmsum fyrirferðarmiklum tækniminjum verið komið fyrir í varðveisluhúsi á Eyrarbakka í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga sem þar er.

Í dag er því svo komið að minjar í vörslu Þjóðminjasafnsins eru allar varðveittar við góðar aðstæður eftir margra ára átaksverkefni. Sett hafa verið og komið í framkvæmd nýjum viðmiðum í varðveislumálum safnsins og er þess vænst að þau verði almennt innleidd í öðrum söfnum landsins.

Kveikur, 8. október 2020, þáttur um varðveislumál á menningarverðmætum, sjá hér.

Hér má sjá umfjöllun Kveiks á RÚV